11.9.2006

Farðu í rass og rófu!

Af hverju segir enginn það lengur? Mér finnst að við ættum að endurvekja rassinn og rófuna. Það er eitthvað retró og hip og kúl við að segja einhverjum að fara í rass og rófu. Mig langar til dæmis að segja ykkur, lesendum mínum, að fara í rass og rófu fyrir að kommenta aldrei. Sigrún mín, þú þarft ekki að fara í rass og rófu. Þú ert yndi og það var líka æðislega gaman að hitta þig um helgina:* Já, en þið hin, kommentið eða farið í rass og rófu. Og hvað eru mörg rass og rófu í því?

Annars hef ég átt ansi viðburðarríka daga. Ég fór á yndislega tónleika með Antony and the Johnsons á fimmtudaginn. Hann hefur svo mikla persónutöfra og frábæra nærveru hann Antony. Svo er tónlistin hans svo yndisleg og hans svo góður söngvari að ég gleymdi stundum að anda og ríghélt í höndina á honum Peter Liljeros mínum.

Já, Peter. Samkynhneigði kærastinn minn er búinn að eignast kærasta. Árans vandræði. Ég óska honum samt hamingju. Það á hann skilið þessi elska.

Leið mín lá síðan til höfuðstaðarins á föstudaginn. Katrín mín átti 25 ára afmæli og maður lætur það ekki framhjá sér fara. Við Katrín og Jens tókum því rólega á föstudagskvöldinu. Drukkum kampavín úr risaflösku og fórum snemma í háttinn. Nema það að Katrín vaknar upp um miðja nótt og þarf svona svakalega að æla. Var síðan með hausinn ofan í fötu það sem eftir lifði nætur á meðan ég, hálfsofandi, skipaði greyinu að loka gluggum og slökkva ljós. Ég get verið svo ónærgætin svona sofandi.

Alla vega. Ælupestin varði lengi og við vorum farin að ræða það alvarlega að aflýsa partýinu. En Katrín er svoddan baráttukona að hún stjórnaði súpugerð og partýplani úr rúminu með þrjá aðstoðarmenn (mig, Jens og Sigrúnu) á fullu að skræla, skera og skúra. Partýið var síðan hin besta skemmtun en ég hlýt þann vafasama heiður að vera gesturinn sem sofnaði áfengisdauða. Eina stundina var ég hrókur alls fagnaður og reytandi af mér brandara en hina sofandi uppi í rúmi þeirra Katrínar og Jens. Ég er enn að jafna mig á þessu vegna þess að svona gerist einfaldlega ekki hjá mér. Ég er yfirleitt sú sem stendur síðast uppi, fer þá heim og meira að segja þríf mig í framan áður en ég heimsæki draumalandið. En já, einhvern tímann er alltaf fyrst.

Annars hafa skólaplönin mín breyst. Ég er sem sagt á leiðinni heim í heilan mánuð (ca. 13. okt til 15. nóv) að vinna skólaverkefni. Ég er ekki komin með kúnna enn en á í viðræðum við einstaklega spennandi fólk þannig að nú megið þið krossa fingur fyrir því... eða bara fara í rass og rófu;)

Engin ummæli: