26.11.2005


Hvar er þessi?

Ládeyða

Hvar er hressa Kamilla? Ég sakna hennar. Núna er hún bara megluð, vill bara hanga heima og hlusta á Jeff Buckley. Nei, annars líkar mér Ládeyðumilla svona af og til. Það er ekki alltaf hægt að vera hress. Nú megiði ekki halda að ég sé dottin í forarpytt eilífs myrkurs og væls. Nei, nei, langt því frá.

Peter, nánasti vinur minn úr bekknum, er nýfarin heim. Við fengum okkur einstaklega ferskan kvöldmat. Soðin þistilhjörtu, brokkolí, geitaost, kex, perur og gott chardonnay. Peter er yndislegur. Hann er sænskur, samkynhneigður, sætur og samsinna mér. Við erum eins og samlokur hér, gerum allt saman og erum komin langleiðina með að þróa með okkur einkahúmor sem ég tel alltaf ákveðin prófstein nýrrar vináttu. Okkar einkahúmor felst í því að tala saman á posh ensku. Í þessari veröld okkar erum við af aðalsættum. Fleiri koma við sögu en það eru Alex, garðyrkjumaðurinn minn og Tone, þernan mín. Það þarf lítið til að gleðja mig.

Ég fer í fyrsta skiptið til Stokkhólms núna á fimmtudaginn. Við ætlum að vinna síðasta hluta verkefnisins í Stokkhólmi og leggjum í'ann eldsnemma á fimmtudaginn í hvítu rúgbrauði með maríuhænum á. Núna vantar mig bara tie-dye bol, útvíðar buxur, sítt hár og eins og eitt stykki jónu til að fullkomna þetta. Hahaha. Þetta verður ansi löng ferð en vel þess virði, trúi ég. Svo gistum við hjá foreldrum Peters og nágranna þeirra. Meira um ferðina seinna.

Ég átti samtal við Kasper, einn kennarann minn, í gær. Við eigum svona samtöl á nokkurra mánaði fresti. Hlutverk þeirra er að veita nemendum persónulegan stuðning og ráðgjöf og styrkja sambandið við kennarana. Þetta er nefnilega ekkert venjulegt samband sem við eigum við kennarana okkar, þau Gry og Kasper. Þau eru eiginlega eins og skyld manni. Voða gott allt saman. Eftir þetta samtal í gær áttaði ég mig enn meira á því í hversu frábærum skóla ég er. Ég held að hvergi annars staðar finnist eitthvað þessu líkt. Ég er ofsa heppin og ánægð.

Jæja, gangið hægt um gleðinnar dyr... eða eitthvað:-/

Engin ummæli: