3.12.2005

Tjena, tjena menniska!

Ég er komin til Stokkhólms og þetta er æðisleg borg! Við gistum hjá foreldrum Peters sem eru alveg eðal. Ferðalagið uppeftir var þó frekar ævintýralegt á hvíta rúgbrauðinu með maríubjöllunum. Það tók okkur tólf tíma að keyra og þegar við vorum 160 km frá Stokkhólmi bilaði gírkassinn! Við gátum ómögulega sett bílinn í gír og þurftum að stoppa í miðri brekku. Svo heppilega vildi til að löggan keyrði framhjá, stoppaði og dró okkur síðan 300m að næsta bílastæði. Þar sátum við síðan og reyndum að upphugsa leiðir út úr þessu veseni því við erum jú kaospilotar;-) Allt í einu virkaði síðan gírkassinn og við brunuðum af stað en málið var að það var bara hægt að vera í fimmta gír þannig að þegar við komum inn í Stokkhólm þurftum við að sikksakka á milli bíla eins og óð værum. Þetta gekk nú bara þar til við komum að fyrsta umferðaljósinu en þá þurfum við að stoppa og ýta bílnum að næsta bílastæði. Foreldrar Peter komu síðan og sóttu okkur og eftir magnað ferðalag komumst við loks í heimilishlýjuna.

Við fáum vinnuaðstöðu hjá Fluidmindsa en það apparat tengist Bookhouse útgáfunni. Vinnuaðstaðan er ekkert nema frábær en ég er búin að taka fullt af myndum sem ég set á netið þegar ég hef tíma. Okkur gengur mjög vel í verkefninu og erum á fullu alla daga. Við ætlum þó að sletta aðeins úr klaufunum í kvöld og kynnast næturlífi Stokkhólms. Ég hlakka til!

Jæja, þar til næst...

Engin ummæli: