6.9.2005


Kamilla, nafna mín og bekkjarsystir.

Jæja krakkar!

Þá er komið að því. Blibbið um síðustu daga. Verð reyndar að viðurkenna að ég er ekki alveg tilbúin til að deila þessu einfaldlega vegna þess að ég er enn að melta það.

Ferðin var frábær. Mér líst ótrúlega vel á fólkið í bekknum og kennararnir mínir, Kasper og Gry, eru alveg hreint stórkostleg. Þessi ferð var að mestu leyti hönnuð til að hrista hópinn saman og skapa traust okkar á milli. Svo fórum við auðvitað á trúnó, settum upp leikrit, dönsuðum með bambusprik og bundið fyrir augun, lærðum stunt atriði, vöskuðum upp, drukkum bjór og kampavín og borðuðum hollan og góðan sveitamat. Pabbi sagði við mig á sunnudaginn að þetta hljómaði eiginlega bara eins og leikskóli! En málið er að jafnvægi líkama og hugar er svo mikilvægt. Eftir fjóra daga í Aasen var ég samt alveg tilbúin að fara heim enda ekki búin að kúka í fjóra daga. Við eyddum síðan síðasta deginum okkar á ströndinni. Það var yndislegt fyrir utan helvítis rokið. Ég er enn að finna sandkorn á mér.

Við heimkomu biðu okkar nokkrir úr Team 11 (ég er í Team 12). Þau létu okkur hafa umslög með upplýsingum um hvað væri að gerast daginn eftir. Við áttum að mæta svartklædd í skólann og hafa mútur með okkur. Ég föndraði I owe you miða sem ég síðan dreifði eins og óð væri. Föstudagurinn fór s.s. í ratleik þar sem okkur var skipt í tvö lið, Knights of the Chaos Order og The Fasan Clan. Hinir góðu og hinir illu. Málið var að banvænn vírus var óðum að dreifast um heiminn og okkar hlutverk (þeirra góðu) var að bjarga heiminum með því að finna mótefni. Hinir áttu hins vegar að reyna að tortíma þessum fagra heimi sem við búum í. Við fengum öll svona hvíta málningarkallabúninga með skjaldarmerki hvors liðs á bakinu. Charles Lindhberg og hauskúpa. Þannig þvældumst við um allan bæinn og leystum þrautir eins og að búa til blóm úr grænmeti og færa sérvitri rússneskri keisaraynju það, fara í kappróður út á höfn, keppa í Twister og svo margt meira. Þetta var auðvitað æðislegur dagur og um kvöldið var síðan partý til að bjóða okkur velkomin. Fyrir partýið var okkur sagt að mæta á kaffihús í bænum með rauða rós. Þar var drukkið og síðan var bundið fyrir augun á okkur og við leidd niður í skóla. Þar áttum við að skríða göng og enduðum hjá dómurum. Mín fyrirmæli voru að segja bara langamma og langafi á íslensku og vera ofsalega reið. Þegar ég kom inn til dómarana var ég síðan beðin um að dansa og gera alls kyns kúnstir. Að lokum var ég leidd niður í sal þar sem allir tóku mér fagnandi og áttaði mig á því að allt dómarviðtalið hefði verið í beinni útsendingu á risatjaldi í salnum. Hahaha!

Svo tók við taumlaus dans og gleði langt fram á nótt. Þrátt fyrir bilaðan ökkla dansaði ég eins og morgundagurinn myndi aldrei koma. Lokaniðurstaða: Fráhábær vika!!!!!!!

Nú hefst síðan alvaran og mitt helsta vandamál er að venjast því að sitja á skólabekk. Það er orðið ansi langt síðan ég hef þurft að sitja í skóla frá 09-16 og með einbeitninguna á fullu allan tímann. Þannig að þessa dagana eru það rólegheit strax eftir skóla. Zulma, ein bekkjarsystir mín sem var með mér í hóp í inntökuprófunum, spurði mig í dag hvar alvöru Kamilla væri eiginlega. Ekki örvænta. Þetta kemur allt með kalda vatninu.

Engin ummæli: