Sukk og svínarí
Helgin var gróf í sukkinu. Herlegheitin byrjuðu á Röskvupartýi í Breiðholti, höfuðstað gengjastríðanna á Íslandi. Þegar við Þórhildur tókum viðtöl við fólkið á framboðslista Röskvu til Stúdentaráðs voru þessi gengjastríð henni ofarlega í huga. Ég hafði nú meiri áhuga á minna ofbeldisfullum verkum eins og kossum. Í tilfelli Þórhildar blandast þetta tvennt saman vegna þess að hún hjó næstum tunguna úr saklausa drengnum sem varð fyrstur til að kyssa hana. Ég held að þetta hype í kringum fyrsta kossinn sé nú bara amerískt bull, alla vega var minn fyrsti koss alls ekkert spennó. Ég skrifa þetta hér vegna þess að ég veit að strákurinn sem átti hlut í máli les þetta pottþétt ekki. Ég held satt að segja að hann kunni barasta ekki að lesa...;-) En aftur að helginni. Við Alma brunuðum í Breiðholtið snemma vegna þess að hún og Vala ætluðu að elda mexíkóskan mat ofan í skoðanasystkini sín. Ég kaus að halda mér frá eldamennskunni enda meinilla við steikingarlykt. Partýið fór hægt að stað og finnst mér að það hafi ekki almennilega byrjað fyrr en Þórhildur og Hannes komu mjög hress úr vísindaferð. Þetta var alla vega eitt heljarinnar partý sem ég mun seint gleyma. Ég þakka litlu systur Sólrúnar fyrir að eiga svona fínar græjur en við héldum dansmót inni í herberginu hennar.
Ég útskrifaðist síðan á laugardaginn og sleit tengsl mín við HÍ. Ég held að ég fari ekki í nám þangað aftur en það er aldrei að vita. Ég á m.a.s. segja nokkrar einingar inni hjá þeim, kannski að ég nýti þær einhvern veginn. Útskriftardeginum eyddi ég að mestu leyti inni við en um kvöldið hélt hún Anna mín, sem var að útskrifast líka, heljarinnar kokteilboð. Ég gat nú ekki sleppt að mæta í það vegna þess að við búum saman þannig að ég skellti mér bara í djammsamfestinginn og lét slag standa. Þetta var gott partý, svo gott að það var tyggjóklessa á stofugólfinu daginn eftir (?!).
Ég hef núna mikla trú á mér og Önnu sem skemmturum. Hápunktur helgarinnar var nefnilega þegar ég, Anna og Freyr komum heim af djamminu á laugardaginn. Þá tókum við smá show á Hringbraut 43, miðstöð skemmtana á Íslandi. Sem barn var ég mikill áðdáandi Prúðuleikaranna og er reyndar enn. Mamma og pabbi voru svo góð að gefa mér Hrólf (píanóleikarann skemmtilega) en hann hefur mikla hæfileika og hægt er að nota hann í búktali. Þar sem ég, Anna og Freyr höfum öll búið í Danmörku höfum við mikinn húmor fyrir því hrognamáli sem Danir tala. Orð eins og liv, sovs og mor eru nefnilega mjög skemmtileg í framburði og Hrólfur er mjög góður í dönsku. Svo skemmir ekki að sósa er það mikilvægasta í lífi hans. Ég veit ekki alveg hvort þið séuð að fatta húmorinn í þessu en ég hef bara ekki hlegið svona dátt í mörg ár. Svo minni ég bara enn og aftur á að við erum til leigu í hvað partý sem er.
Þrátt fyrir stíft sukk er ég ennþá reyklaus stúlka.
Sorgardagur á morgun en þá þarf ég að skila bíl bróður míns. Eftir mánuð af lúxus þarf ég að fara að labba...
Einn mannfræðibrandari í lokin (held reyndar að þeir séu ekki margir. Þið kannski lumið á nokkrum):
Það voru einu sinni tveir góðir vinir er báðir lögðu stund á mannfræði. Að námi loknu fékk aðeins einn þeirra vinnu og þótti báðum það miður.
En veistu hvað sá sem ekki fékk vinnu sagði við þann sem fékk vinnu þegar þeir hittust aftur:
„Ég ætla að fá eina með öllu nema hráum...“
Þess má geta að ég er mannfræðimenntuð ung kona.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli