3.3.2004

Sms, ást í neyð. Ein þú getur bjargað mér

Ég tek mér það bessaleyfi að breyta örlítið texta þessa mjög svo ágæta lags. Þannig er mál með vexti að í dag er ég svarinn óvinur smáskilaboða. Þau eru að tröllríða öllu. Fólk getur ekki tjáð sig án þess að nota þessa litlu djöfla sér til aðstoðar. Í mínum ungdómi voru gsm símar bara ekki til. Það var ekki fyrr en um 17 ára aldur að þeir fóru að sýna sitt ljóta höfuð. Reyndar er ég háð símanum mínum og gæti ekki verið án hans fyrir fimmaur. En ef ég hugsa til baka þá man ég varla hvernig fólk hafði samband við hvort annað. Heimasímar voru auðvitað vinsælir og svo einstaka bréfdúfa.

Ég telst nú ekki jómfrú í notkun sms. Ég reyndar mjög sjóuð þegar að þeim kemur en flestir sem mig þekkja vita að ég þoli ekki að eiga samtal í formi sms. Það er í lagi að senda eitthvað einfalt, helst ef það krefst ekki svars en guð minn góður ef að farið er að skrifa heilu bækurnar og stofna heilu samböndin í gegnum sms. Reyndar finnst mér líka leiðinlegt að tala í símann, alla vega kjafta í símann. Frekar vil ég horfa í augun á þeim sem ég tala við. Svo á ég líka frekar bágt með að einbeita mér að símtalinu, sér í lagi ef ég sit fyrir framan tölvu eða sjónvarp.

Já, alla vega. Gott fólk, samskiptamáti okkar er í hættu. Notum sms í hófi. Alla vega er ég að fara að æla yfir ofnotkun sms. Og ekki viljum við að ég æli, er það nokkuð???

Dj Kam International fór í víking til Keflavíkur í gær. Meginástæða víkingins var að skila gráa fáknum sem kenndur er við Opel til bróður míns sem var að koma frá Marokkó. Ég datt síðan aldeilis í lukkupottinn hjá honum daddy cool. Reyndar datt ég í þennan lukkupott fyrir mörgum mánuðum síðan en var að hirða lukkuna í gær. Pabbi fékk nefnilega gefins heljarinnar plötusafn og ég fæ að hirða draslið. Draslið er sem sagt það sem pabba finnst minna spennandi í safninu en eins og maður segir one man's trash is another man's treasure. Ég á núna heilan helling af frábærum plötum, Blondie, Eurythmics, Devo, Nena, Flashdance, Donnu Summer, Diönu Ross, Grafík, Carpenters, Madonnu, Prince og margt fleira. Ég var meira að segja svo heppin að Þórhildur lánaði mér plötuspilara. Svo kom ég hryllilega spennt heim í gærkvöldi eftir rútuferð í ofsaveðri og ætlaði að plögga plötuspilaranum. Mér til mikilla vonbrigða er ekki hægt að tengja plötuspilara við fínu Pioneer græjurnar mínar. Ég hringdi vælandi í pabba og hann ætlar að reyna að redda mér. Hann á gamlan magnara sem hann getur látið mig fá. Þannig að það er ekki öll von úti enn:-) Ég sem var farin að plana ultra plötupartý næstu helgar...

Engin ummæli: