10.11.2003

Pulitzerinn á næsta leiti

Við Sara erum snillingar. Við héldum að við yrðum fram á nótt að skrifa greinina en nú er klukkan 2 og við búnar. Og greinin er svona líka asskoti góð!! Ég ætla að setja hana á netið eftir að við fáum feed-back frá kennaranum. Reyndar þarf ég að skrifa eina enn grein en hún á bara að vera um 600 orð þannig að ég rumpa því af í kvöld.

Helgin var frábær. Við sáum Down with love á föstudaginn og fannst hún frábær. Allar hugsanlegar klisjur úr myndum frá 6. áratugnum var troðið þar inn. Búningarnir voru sjúklegir og tónlistin yndisleg. Mig langar í soundtrackið úr þessari mynd. Ætli það fáist?

Laugardagurinn fór aðeins út um þúfur. Við áttum að hitta Frede, gaurinn sem við ætluðum að taka viðtal við en hann hringdi og sagði að hann kæmist ekki til Árósa og spurði hvort við gætum ekki bara komið til Auning í staðinn. Jú, jú, ekkert mál. Nema það að þetta varð hellings mál vegna þess að rúturnar til Auning fara á 4 tíma fresti og rútan sem við héldum að færi kl. 14 fór kl. 13.25. Sæjitt!! Ég hringdi alveg í rusli í Frede en hann er svo góður kall að þetta var ekkert mál. Ég tók síðan bara símaviðtal við hann í morgun þannig að þetta reddaðist allt. Reyndar hefðum við alveg viljað hitta hann en svo fór sem fór.

Eftir að við áttuðum okkur að við hefðum misst af rútunni fórum við beinustu leið á Arthur's sem er svona blaðamennskunema hangout og fengum okkur stóran bjór. Okkur fannst allt vera í klessu og ætluðum bara að drekka okkur fullar og drepa kennarann okkar (!) fyrir að láta okkur skrifa þessa grein. Sem betur fer gerðum við það ekki heldur skelltum okkur bara á djammið um kvöldið. Við fórum í partýið sem var uppi í skóla en það var sko ekki upp á marga fiska þannig að við skelltum okkur bara í bæinn og auðvitað á uppáhalds barinn okkar, nefnilega, Sway. Það sem við vissum ekki var að það var eitthvað homma- og lesbíupartý á Sway það kvöldið. O, boy, o boy! Þegar við komum inn tókum við nú strax eftir svolítið mörgum kvenlegum körlum og svo þegar einhver stelpa kleip í rassinn á mér við barinn föttuðum við þetta. Reyndar föttuðum við ekki neitt. Það var ekki fyrr en nýji besti vinur okkar, Martin, spurði hvað við værum nú eiginlega að gera á gay bar. Við vorum auðvitað bara eitt stórt spurningamerki en þetta var bara þetta eina kvöld. Djöfull var nú gaman. Á milli okkar Martins myndaðist djúp vinátta og hann sagði mér frá því að kærastinn hans til sex ára hefði verið algjör typpakall og svín. Gerði víst ekki annað en að halda fram hjá honum. Ég sagði Martin auðvitað að hann ætti skrilljón sinnum betra skilið og skipaði honum bara að leika sér og gleyma svíninu. Hann ætlaði að reyna.

Þegar klukkan fór að nálgast þrjú þurftu öskubuskurnar Kamilla og Sara auðvitað að drífa sig í átt að eðalvagninum áður en hann breyttist í gult strætóskrímsli á slaginu þrjú. Reyndar var eðalvagninn orðinn að strætó þegar ég fór upp í hann. Allt of mikið af blindfullum unglingum og engin laus sæti. Það er alveg ótrúlega leiðinlegt að vera háð strætó til að komast heim af djamminu. En ég sparaði mér a.m.k. 100 með að kaupa ekki leigubíl. Ég er öll í því núna. Spara, spara, spara. Gleymdi mér reyndar aðeins á föstudaginn og keypti mér gallabuxur (erase that from your mind, mother!) en ég er samt smá sparigrís ennþá. Hef til dæmis smurt mér nesti í skólann í rúman mánuð og það þyngir sko pyngjuna!!

Alla vega, nú hafið þið fengið atburði helgarinnar beint í æð. Until next time!

Engin ummæli: