11.11.2003

Það er músíkin

Ég veit ekki hvort það séu allir hannaðir svona en skapbrigði mín geta auðveldlega breyst við áheyrn fallegrar tónlistar. Þegar ég er döpur skelli ég til dæmis Stevie Wonder á fóninn og innan skamms er ég næstum farin að dansa, alla vega syngja með. Svo er það líka annað að ég verð alltaf að hlusta rosalega hátt á tónlist til þess að virkilega heyra hana, skiljiði hvert ég er að fara? Þetta er eins og stundum þegar maður er að hlusta á einhvern. Maður heyrir manneskjuna tala en heyrir hana ekki segja neitt. Ég stend sjálfa mig stundum við þetta, hlusta (er samt tæknilega séð ekki að hlusta...) á einhvern en heyri ekkert. Sit bara og jánka en veit ekkert hvað er verið að tala um, bara í mínum eigin heimi. Alla vega... ég veit ekki alveg hvort fólk eigi þá að tala rosalega hátt þegar það talar við mig þannig að ég hlusti. Ég hef nú alltaf verið pínku heyrnardauf. Vá, nú er ég komin langt út fyrir efnið. Ég held að ástæða þess að ég þarf að hlusta svona hátt á músík (fyrir utan það að hún hljómar nú best þegar allt er á fullu blasti) er sú að ég á pabba sem heitir Ingibergur. Nafnið hans er svo sem ekkert mikilvægt í þessu tilliti en hann heitir það samt. Síðan ég man eftir mér hefur pabbi hlustað á tónlist með allt í botni. Svo þegar við Ingi Þór urðum stærri og fengum almennilegar græjur fór þetta að vera hálfgerð keppni. Allir að hlusta á sína tónlist í sínu herbergi og þá vill maður ekkert heyra eitthvað annað en sitt eigið. Þegar ég bjó hjá mömmu og pabba voru græjur í tónlistarherberginu hans pabba, mínu herbergi, Inga Þórs herbergi, stofunni, kjallaranum, bílskúrnum og garðhúsinu. Svo er líka eldgamalt útvarp í eldhúsinu og lítið útvarp í svefnherbergi mömmu og pabba. Sem sagt, hvergi friður... eða svoleiðis. Oft þegar ég kom heim heyrði ég langar leiðir að pabbi var heima vegna þess að tónlistin var á hæsta styrk og ómaði næstum um allt hverfið.

Nú er ég bara ein í herberginu mínu á Lottesvej 3. Ég er nú svo heppin að Laura, stelpan sem ég leigi herbergið af, lánaði mér græjurnar sínar. Þegar ég bjó í sveitinni í Lystrup var ég bara með svona litla tölvuhátalara og ég sagt ykkur það að það var nánast hljóðmengun að reyna að hlusta á tónlist í gegnum svoleiðis drasl. Já, ég er búin að vera að hlusta voða mikið á Rufus Wainwright. Nafnið hans er ekki bara skemmtilegt heldur tónlistin líka. Ég á nú reyndar bara nokkur lög en þau eru öll góð. Ég heyrði fyrst í honum þegar hann söng lag á I am Sam soundtrackinu. Gamalt bítlalag, Across the Universe. Svona líka fínt hjá drengnum. Tónlistin hans er svolítið poppuð en samt ekki svona meginstraums eitthvað, smá svona folk music fílingur. Það er eitthvað svo sérstakt við hana og svo eru textarnir svo góðir. Ég held ég verði bara að kaupa nýja diskinn hans sem heitir Want. Svo skemmir ekki að hann er voða myndarlegur (var ég alveg að skemma trúverðugleika minn sem músíkspekúlant þarna kannski?)

Móðir + faðir koma eftir 4 daga. Víííííí!!!!

Engin ummæli: