8.10.2003

Ég er útlendingur en hef samt val

Ég hef legið í skítaflensu. Föstudagurinn lukkaðist svona líka vel. Ef blaðamennskan á ekki við mig þá fer ég bara út í plötusnúðabransann. Plötusnúðalífið er þó ekki alltaf glæsilegt. Þessu öllu fylgdi nefnilega frítt áfengi og þið getið ímyndað ykkur ástandið á mér, sérstaklega þar sem barinn opnaði kl. 14.15. Rétt eftir miðnætti var ég komin upp í rúm... Það var samt alveg rosalega gaman og allir lofsömuðu dj Kam (sem er n.b. nýja nafnið mitt;-)) Þetta kvöld held ég að hafi verið kveikjan að veikindunum sem fylgdu. Líka sú staðreynd að ofnarnir í húsinu mínu virkuðu ekki þannig að það var um 16 stiga hiti innandyra. Ekki hef ég gaman af því að sofa í sokkum og með húfu. Hitinn kom aftur á í gær, þökk sé Guði, og ég gat látið mér nægja að sofa einungis með sæng...

Í veikindum mínum hef ég verið að hugsa mikið. Ekki mikið annað hægt að gera þar sem danska sjónvarpsdagskráin er ekki upp á marga fiska. Heimþráin tók sig upp að nýju. Ég hlakka bara svo rosalega til að vera ekki útlendingur lengur. Að vera í umhverfi sem ég þekki eins og lófann á mér. Að tala reiprennandi tungumálið og geta farið í bankann og sagt: "Af hverju í andskotanum má ég ekki fá debetkort?!" Reyndar er ég búin að finna nýjan og öllu sorglegri vinkil á þessu máli. Reyndar er hann ekki sorglegur fyrir mig heldur marga aðra útlendinga í Danmörku og bara út um allt. Málið er nefnilega það að ég kaus að koma til DK og það sem meira er, ég fer heim í desember. Það á ekki við um alla. Pælið í fólkinu sem neyðist til að flytja til annars lands vegna þess að það er eini möguleikinn til að öðlast betra líf. Og þá erum við oft að tala um algjörlega ólíka menningarheima. Ég get talið mig drulluheppna vegna þess að Danmörk er nú ekki algjör andstæða Íslands. Ég get alla vega farið út í búð og keypt mér svínakjöt vitandi það að það er svínakjöt en ekki lax... Núna skil ég sem sagt innflytjendur sem búa í ókunnugu landi. Þau eru ekki þar til að stela atvinnu þeirra sem fyrir voru heldur af neyð. Þetta er það sem þau þurfa að gera til að tryggja sér og sínum betra líf. Eftir þriggja daga rúmfestu finnst mér ég skilja meira en eftir þriggja ára mannfræðinám. Já, þetta var viskumoli Kamillu í dag.

Eitt einn. Síðan hvenær fórum við að "gæða"flokka hjálparstarf? Sören, bekkjarbróðir minn, var að safna fyrir Rauða Krossinn um daginn. Hann gekk um og bað fólk að gefa smá pening til hjálpar þeim sem minna mega sín. Sumir vildu ekki gefa neitt nema það væri fyrir Palestínu. Vá?! Við erum að tala um nokkra hundraðkalla. Skiptir það máli hverjum það kemur til góða fyrst það gerir það nú á annað borð?

Engin ummæli: