Jimi Hendrix á öxlinni
Þetta var nú skemmtilegt. Ég er búin að ákveða að segja bara alla sólarsöguna um stefnumótið stóra, veit vel að þið eruð að drepast úr forvitni. Þannig er mál með vexti að fyrstu helgina mína í Köben hitti ég gaur sem heitir Steffen...blablabla...skiptumst á númerum...blablabla. Svo hitti ég hann reyndar líka í þessu risapartýi á Holmen og eftir nokkur sms, sem ég btw þoli ekki, ákváðum við að hittast. Við hittumst á stað sem heitir Mærkbar og er á Vesterbro en áður en ég held lengra ætla ég að koma með nokkra punkta um staðarval fyrir stefnumót sem ég og Grétar skrifuðum fyrir Röskvufréttir ekki alls fyrir löngu. Lesið þetta vel og vandlega!
Þegar tvær manneskjur draga sig saman í rómantískum tilgangi og taka að þróa með sér samband standa þær og allir sem hafa verið í sömu sporum frammi fyrir sama vandamálinu: HVAÐ Á AÐ GERA??? Manneskjunum langar til að verja tíma saman en það er ekki nóg að þær séu bara saman. Þau verða að finna sér eitthvað að gera. Förum nú gróflega yfir möguleikana. Kaffihús, bíó, vídeó. Skoðum þá alla.
Kaffihús. Áður en fólk er búið að finna sér samræðugrundvöll og sameiginleg áhugamál þá er kaffihús kjörinn staður... EF ÞÚ VILT VANDRÆÐALEGAR ÞAGNIR! Gallinn við kaffíhús er einfaldlega sá að þið þurfið að tala of mikið saman. Maður er bara að hoppa beint út í djúpu laugina. Maður veit ekki alveg um hvað er hægt að tala og það myndast ekki afslöppuð stemmning. Þetta er næstum því „turnoff.” Kaffihús eru fín á seinni stigum sambandsins en ekki á frumstigum þess.
Bíó. Bíómyndir eru skemmtilegar, á því er enginn vafi. En bíóhúsin eru andstæða kaffihúsanna; það eru engin samskipti. Við höfum ekkert við „sjénsinn” að gera á meðan bíómyndinni stendur og fyrir mynd og eftir er samræðugrundvöllurinn aðeins umrædd bíómynd. Semsagt þessi möguleiki er líka „out.”
Vídeó. Að skella ræmu í tækið lítur ágætlega út. Þar er hægt að ýta á pásu fyrir smá spjall eða jafnvel koss og ef vandræðaleg þögn kemur upp er alltaf hægt að ýta aftur á „play.” Bíðum nú við. Hvað felur það í sér að horfa saman á vídeó? Það er ekki hægt að horfa á myndbandið á hlutlausu svæði. Og það að draga „sjénsinn” strax inn á heimilið! Það er kannski of stórt stökk á frumstigum sambands og óeðlileg þróun.
Ok, eins og þið sjáið eru kostirnir hvorki margir né fagrir og ég sem þykist vera doktor í ráðleggingum um ástarlífið hoppa beint í djúpu laugina. Eftir á að hyggja er ég reyndar ekkert svo sammála grein okkar Grétars sem var reyndar skrifuð meira í gríni en alvöru eins og þið voruð kannski búin að átta ykkur á. Klára fólk! Alla vega var þetta ekkert svo hræðilegt, reyndar bara helvíti fínt. Nú ætla ég að segja ykkur aðeins frá honum Steffen. Hann er 29 ára (ekki fá áfall, mamma. Ég ætla ekki að giftast honum.) og vinnur hjá einhverju ráðuneyti, man ekki alveg hvað hann sagði, hljómaði ekkert of spennandi... Hann spilar á gítar og bassa og var lengi vel í Doors coverbandi (!) sem spilaði víst um allar Danmerkurtrissur. Núna er hann í hljómsveit sem heitir Humungus Fungus sem spilar allt frá fönki upp í polka, hahaha! Svo er hann með tattoo af Jimi Hendrix á öxlinni. Eruð þið eitthvað farin að ímynda ykkur þetta? Bróðir hans er í fangelsi vegna þess að hann er/var eiturlyfjasjúklingur og búin að vera inn og út úr steininum í langan tíma. Þetta er reyndar önnur og sorglegri saga sem ég ætla ekkert að fara út í. Ég komst að þessu öllu með því að sitja með manninum á kaffihúsi þannig að þessi kostur er nú ekkert svo slæmur. Auðvitað komu vandræðalegar þagnir inn á milli en það er hægt að vinna úr þeim á ýmsa vegu. Til dæmis með að tala um spikfeita barþjóninn, lagið sem er verið að spila eða veðrið. Það er alltaf klassískt, reyndar töluðum við ekkert um veðrið í gær...
Eftir Mærkbar fórum við á Riesen og hittum þar Ullu og Sabine (Stelpa sem var skiptinemi á Íslandi). Svo voru þarna Íslendingar og ég þekkti einn þeirra (!), hana Ollu. Hún er vinkona hennar Önnu, vinkonu minnar og við vorum saman í Kynferði og hnattvæðingu í HÍ. Það var gaman að hitta hana, verst að ég var búin að fá mér aðeins of mikið í annan fótinn. Vona að ég hafi ekki orðið mér til skammar:-/ Held samt að ég hafi bara verið skemmtileg... Brynja Dögg kom síðan á Riesen og vildi kíkja eitthvað annað þannig að við stungum eiginlega af. Ég er meira að segja svo ömurleg að ég kvaddi ekki Steffen... Við gerðum þau mistök að fara á Moose. Boring!!! Gerðum líka þau mistök að fara á McDonald. Syndsamlega gott!!! Hjólaði síðan drukkin heim og var ósjaldan næstum búin að kála mér.
Í kvöld er það bara JÚRÓVÍSJÓN!!!!!!!! Vúúúúíííííí!!! Áfram Gitte Haukdal!!! Ég er einmitt búin að vera að spara blöðru með íslenska fánanum (Takk, Fanney mín!) fyrir stund sem þessa. Er búin að vera að lesa þetta skemmtilega júróblogg hjá Loga og Gísla Marteini. Ágætt, alveg hreint. Björk, Sigurgeir og Sigrún ætla að halda Júrópartý og Ulla fær að upplifa ekta íslenskt júrovisjónpartý. Vantar bara risaskjáinn eins og hjá Krissa. Svo eru Olla og kærastinn hennar líka með partý, kannski að við tékkum á því.
Well, ég er búin að skrifa heilan helling, held að ég fari og búi mér til velling, er ekki búin að borða neitt og klukkan orðin eitt...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli