8.4.2003

Ég fór á forsýningu á Bowling for Columbine í gærkvöldi í boði lifandi.is. Þetta er alveg rosaleg mynd. Ekki skrýtið að maðurinn hafi fengið óskarinn. Ótrúlega vel gerð mynd. Snörp þjóðfélagsádeila án þess þó að snúast upp í vitleysu og leiðindi. Hann gerir þetta svo vel. Nær líka að koma ótrúlega miklum upplýsingum í þessa mynd og þetta kemst allt til skila. Mig langar liggur við að sjá hana aftur í kvöld. Þetta er auðvitað mjög óhugnalegur raunveruleiki. Fólk er nánast skilyrt til að hræðast og þó svo að glæpatíðni hafi lækkað í BNA hafa vopnakaup hækkað gífurlega. 6 ára börn farin að skjóta hvort annað og ég veit ekki hvað og hvað. Þið verðið að sjá þessa mynd. Ekki spurning.

Ég tók fyrstu skrefin í að pakka niður búslóðinni minni í gær. Þetta er svo mikið dót að það er eins og gott að byrja sem fyrst. Ég valdi músík til að taka með mér. Ég ákvað að gera það sem fyrst vegna þess að ég vissi hversu erfið ákvörðun það yrði. Ég gat valið 36 diska og það tók rúma þrjá tíma. Endaði með því að ég átti tvö laus pláss eftir. Þá tók ég mig bara til og skrifaði bestu lögin af hinum ýmsu diskum á tvo diska. Otis Redding, Bill Withers, Stevie Wonder, Sly and the Family Stone og fleiri góðir á einn og svo Yo la tengo, Red House Painters, Cowboy Junkies og solleis á hinn. Rosa sniðug stúlka. Nú er ég búin að taka fram öll 30 skópörin mín (þetta er ekkert grín!!) og ætla að pakka bróðurpartinum af þeim niður. Það verður svona fimm tíma verk;-)

Ég er að spá í að fara ekkert út úr húsi í dag. Nenni ekki að gera veðurguðunum, þeim óákveðnu aulum, það til geðs að fara út í þetta veður. Ég las um daginn að apríl sé kallaður mánuður vonbrigðanna hvað veðurfar varðar og er ég nokkuð sammála því. Samt er sumardagurinn fyrsti í apríl, hvaða grín er það?! Svo er líka afmælisdagurinn minn í apríl. Vona bara að það verði allir með sól í hjarta á þeim herrans degi og það skemmir ekki ef veðrið verður gott...

Engin ummæli: