Rosalega langar mig í nýju Bonnie Prince Billy plötuna. Er búin að heyra tvö lög af henni á Rás 2 í dag, ofsalega ljúf. Gjafmilt fólk minni ég bara á afmælið mitt í næsta mánuði. Ég er að spá í að halda svona afmælis- og kveðjupartý einhvern tímann um páskana. Var reyndar að spá í 21. apríl (2. í páskum) en svo sagði mér einhver að það væri bara almennur vinnudagur daginn eftir þannig að ég hef ákveðið að taka tillit til vina minna sem eru á vinnumarkaðinum og breyta dagsetningunni. Læt ykkur vita betur seinna.
Ég held að ég sé eitthvað skrýtin. Ég er svo mikil skipulagsfrík að það helsta sem ég hef áhyggjur af út af þessari Danmerkurferð er hvernig ég eigi að pakka niður fyrir átta mánuði. Mig hefur meira að segja dreymt þetta oft, meira kjaftæðið. Ég held að ég eigi eftir að hafa voða gott af þessu, slaka smá á í þessari áráttu sem ein vinkona mín líkti eitt sinn við snert af einhverfu, dæmi hver sjálfur...
Elskulegir foreldrar mínir gáfu mér nýtt sófaborð í gær, einstaklega fallegt tekkborð úr Góða hirðinum. Takk, mamma og pabbi! Svo er gamla settið bara á leið til NYC. Veit reyndar ekki hversu vel mér líst á það og ég veit að Ingi Þór er að farast úr áhyggjum og vill ekki að þau fari. Hann heldur því fram að ef til stríðs komi muni fyrst verða varpað sprengjum á New York, svo London og þá Manchester. Auðvitað munu mamma og pabbi hætta við að fara ef þeim er ráðlagt að gera það en annars leggja þau í hann. Fólk á auvitað ekki að hætta að lifa lífinu og loka sig bara af, þá fyrst hafa þessir stríðsóðu valdamenn yfirhöndina, þegar þeir hafa náð að innbyggja hræðslu í þegna sína og annarra landa.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli