Ég er búin að vera mjög pirruð í dag, veit ekki af hverju en hugsa að það tengist eitthvað ömurlegu ástandi heimsmála. Maður fyllist af vonleysi vitandi af þessu stríði í Írak. Ég fór nú samt á mótmælafund á Lækjartorgi seinni partinn og hrópaði og klappaði í rokinu og rigningunni. Ögmundur var frábær og sömuleiðis Þórunn Sveinbjarnar. Svo voru krakkar úr leiklistardeild LHÍ með hálfgerðan gjörning fyrir framan málningarskvett stjórnarráðshúsið. Þau lágu útötuð í svínablóði eins og lík fyrir framan stjórnarráðið. Mjög áhrifamikið, fær mann til að muna eftir öllu saklausa fólkinu sem lætur lífið í svona bévítans átökum. Ingi Þór var víst líka að mótmæla í Manchester en þar hafa farið fram kröftug mótmæli út af árásunum á Írak, gott hjá stráknum!
Mamma og pabbi eru hætt við að fara til NYC, sem betur fer. Pabbi greyið hafði varla sofið af áhyggjum þannig að þau ákváðu bara að fara til Köben í staðinn. New York verður bara að bíða betri tíma. Ég segi bara Ha' det sjovt i Köbenhavn, mine dejlige forældrer. Maður verður nú að æfa sig í dönskunni þar sem ég verð bráðum tímabundinn íbúi þar...
Hilma og Sigrún Dögg eru að koma til mín. Við ætlum að horfa á Bachelor og Sex and the City. Var reyndar að skrifa pistil fyrir ljósvakamiðlun um Bachelor. Hér er smá bútur:
Miðlar sjónvarpið raunveruleikann eða brenglar það hann? Verður þáttur eins og the Bachelor ekki bara til þess að við sköpum staðalmyndir um ýmsa hópa í þjóðfélaginu og búum til staðlaðar útgáfur af konum sem eiga ekki við rök að styðjast. Ég hef heyrt lýsingar á sumum kvennanna sem taka þátt í the Bachelor. Lýsingar eins og: „Fegurðarsamkeppnatýpan sem vælir bara ef hún fær ekki sínu fram,” og „vel menntaða konan sem talar og talar en segir samt ekki neitt.” Á sjónvarp ekki þátt í því að svona staðalmyndum er viðhaldið? Verður þáttur eins og the Bachelor ekki bara til þess að bandarískar konur verði álitnar gera allt til að ná sér í sæmilegan karlmann?
Fjölmiðlaefni hefur oft verið álitið félagslegur mælir (e. cultural indicator), það er að það endurspegli sameiginleg gildi og hefðir tiltekins tíma og staðar eða hóps (McQuail, 2000). Hvaða hugmyndir gefur the Bachelor þá um ungar og einhleypar bandarískar konur? Þetta er hættulegt að því leytinu til að það skapar staðlaðar ímyndir um þennan hóp og hvernig hann hagar sér. Þó að í the Bachelor komi fram alvöru fólk er það þá að hegða sér eins og það myndi gera í daglega lífinu þegar engar myndavélar eru að fylgjast með þeim? Þetta er auðvitað einstaklingsbundið en líklega endurspegla þættir sem slíkir ekki hið daglega líf.
The Bachelor er einn þeirra þátta sem endurspegla ekki raunveruleikann á neinn hátt sem eðlilegur gæti talist. Hann endurspeglar aðstæður sem hinn venjulegi Jón og hin venjulega Gunna eiga aldrei eftir að upplifa og þess vegna set ég spurningarmerki við þann flokk sem þessi þáttur fellur í, það er raunveruleikaþáttur. Efni þáttarins er líka hálf hallærislegt en það selur og það virðist skipta öllu máli í þessum bransa, burtséð frá því hvort efnið hafi slæm áhrif á komandi kynslóðir og álit þeirra og skoðanir á kynjunum.
S.s. Algjört prump sem ég er samt að fara að horfa á!!!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli