29.11.2002

Í dag eru 13 dagar þangað til ég kemst í jólafrí. Jibbí! Áður en ég veit af get ég farið að vaka lengi, sofa lengi, hanga, gera ekki neitt, gleyma því að þjóðarbókhlaðan er til og hlakka almennilega til jólanna.

Það gengur ágætlega að lesa fyrir þetta mannkynssögupróf, hægt en ágætlega. Tíminn líður bara allt of hratt sem er gott ef ég hugsa til þess að ég verð búin í prófunum bráðum en slæmt ef ég hugsa til alls þess sem ég á eftir að lesa:-/

Ég hitti Mörtu á hlöðunni í gær. Bifrastarpían bara komin í musteri menntunar að vinna hópverkefni. Eftir hádegismat kom ég að borðinu mínu og hún var búin að skilja eftir ástarbréf til mín. Reyndar byrjaði þetta sem ástarbréf en svo nennti Marta litla ekki að skrifa meir og benti mér á að heimsækja sig í hópvinnuherbergið á 4. hæð. Ég hljóp upp og kíkti aðeins á blessunina og þegar ég kom til baka að borðinu mínu beið mín annað bréf og mandarína í þokkabót. Þá hafði hún Hilma litla ætlað að gleðja hana Kamillu litlu en rétt missti af mér. Þetta mætti segja að hafi verið hápunktur annars viðburðalítils dags. Það þarf ekki mikið til að gleðja mig. Endilega haldið þessu áfram stúlkur mínar.

Ég verð bara að segja að hann Ingi Þór Ingibergsson er mesti letibloggari sem ég þekki. Sendir mér e-mail um að hann sé sko byrjaður að blogga til að svala frásagnarþörf sinni en hefur síðan bara bloggað einu sinni. Ekki beint spennandi að koma inn á þá síðu...annað en þessi síða sem er stútfull af viskumolum og juicy sögum um svaðilfarir mínar og sigra. Bla bla bla. Ég og allir hinir sem eru að lesa undir próf núna, erum örugglega mest óspennandi fólk í heimi...en í stað þessa þrældóms fæ ég kannski að vinna við eitthvað skemmtilegt í framtíðinni og fæ kannski bara monninga fyrir það líka (eitthvað sem ég veit varla hvernig lítur út þessa dagana).

Engin ummæli: