20.7.2005

Það var kærkomin tilbreyting að fá smá rigningu í Kaupmannahöfn. Ég er nefnilega svona 17 stiga stelpa, þegar viðkemur hita alla vega. Og þegar það er of mikill raki þá stíg ég rigningardans. Rigningin hér hefur líka verið þannig að það kemur hellidemba í 5 mínútur og svo styttir upp. Þá er gott að sitja inni í Wasteland og fylgjast með fólkinu fyrir utan rjúka af stað í leit af skjóli frá dembunni. Og ekki skemmir að vera með góða bók í hönd. Ég er að lesa svo yndislega frábæra bók núna. Hún heitir The Rotter's Club og er eftir Jonathan Coe. Yndisleg uppvaxtarsaga um vinahóp í Birmingham á 8. áratugnum. Hún er svo vel skrifuð og drepfyndin í þokkabót. Stend mig svo oft að því að hlæja upphátt. Það er svo gott að hlæja. Marta, lestu þessa bók. Þú átt eftir að elska hana!!

Það styttist óðum í að ég flytji til Árósa og hefji nám við Kaospiloterne. Þetta er rosalega spennandi. Fékk samt smá panic attack um daginn. Vissi ekkert hvað ég ætti að gera við líf mitt. Mér var n.b. rosalega heitt þegar kastið kom og vildi heitast af öllu (pun intended!) eiga íslenskt sumar. Í roki og skítakulda. En ég jafnaði mig fljótt á þessu og er nú stútfull tilhlökkunar.

Það kom svo krúttleg stelpa í búðina í dag. Hún var með fangið fullt af upprúlluðum málverkum og spurði hvort hún mætti sýna mér. Ég sagðist ekki hafa áhuga á að kaupa en vildi gjarnan sjá þau. Hún sagði mér frá því að hún væri að læra myndlist við skóla í Kraká en kæmi frá Tjétseníu (ég mun aldrei muna hvernig á að skrifa þetta orð!) og að krakkarnir í bekknum hefðu ákveðið að fara í ferðalag til að sýna Evrópubúum listina sína. Þetta var allt voða fallegt og það var gaman að spjalla við hana. Hún sagðist vera voða ánægð að vera Kaupmannahöfn vegna þess að allir brostu svo mikið. Hvernig er þetta eiginlega þarna í Austur-Evrópu?! Er fólk bara alltaf með skeifu? Ég hef nú bara komið til Eistlands og man hreinlega ekki hvort fólk hafi mikið verið að smæla framan í heiminn eða mig öllu heldur. Annars er ég óttalega léleg í að taka eftir svona hlutum. Ætli ég sé ekki bara eins og elsku litli bróðir minn. Smá dæmisaga:
IÞ: Já, ég hitti einhverja stelpu sem þekkir þig.
K: Já, er það? Hver var það?
IÞ: Æ, ég man það ekki.
K: Ok, hvernig leit hún út?
IÞ: Uuuu, hún var með brúnt hár... held ég.

Hahaha. Systkinin kannski bara frekar utan við sig þó ég hafi nú aldrei litið á sjálfa mig sem manneskju sem er utan við sig. Kannski er ég bara kölkuð. Enda á gamalsaldri.

Ég fór í mat til Sigrúnar Daggar í gærkvöldi. Ekki aðeins fékk ég að njóta hennar félagsskapar heldur er Hanna María í Kaupmannahöfn þannig að þetta var ansi ljúft. Vantaði bara Mörtu litlu. Við átum yfir okkur og sátum og kjöftuðum um heima og geima. Takk, elskurnar!

Verið nú duglegri að kommenta og munið að þetta er bara one-way information flow (oh, ég er svo ensk...) og ég veit ekkert hvað þið eruð að bauka. Gerum þetta gagnvirkara!!!

Engin ummæli: