Líf mitt sem tilvonandi Kaospilot
Jæja, elskurnar, ykkur þyrstir líklega í frásögn af helginni miklu. Helginni sem var vendipunktur í lífi mínu og byrjun á einhverju sem ég veit að á eftir vera stórkostlegt. Ég ætla að gera þetta eins mér sæmir: á skipulagðan hátt.
Fimmtudagur:
Ég lagði spennt af stað frá Kaupmannahöfn kl. 13.57 að staðartíma. iPodinn á sínum stað og fiðrildi í maganum. Kl. 16.46 stoppaði lestin í Árósum. Matta ætlaði að koma og hitta mig á stöðinni kl. 17.20 þannig að til að drepa tímann skellti ég mér bara í H&M og keypti mér eitt stykki gullfallegan jakka. Eftir innkaupin komu elskurnar mínar Matta, Diljá, Svanhvít og Silla að sækja mig. Leiðin lá í Fötex að kaupa í matinn en ég var orðin svo svöng að mér var skapi næst að taka vænan bita af samferðakonum mínum. Um kvöldið var étið, drukkið og slúðrað. Félagsskapur af bestu gerð.
Föstudagur:
Klukkan 9 hófst vinnustofan. Ímyndið ykkur stað þar sem sólin skín og ungir eldhugar láta drauma sína rætast. 70 manns, alls staðar að, komnir til að láta ljós sitt skína og helmingur þeirra kemst inn í skólann. Morguninn hófst á croissants og kaffi á svölunum. Bob Marley á fóninum og enn fiðrildi í maganum. Í aðalsal skólans hittum við síðan fyrir hana Stine frá The Danish Institute of Untamed Creativity. Við fengum útrás með dans, söng og öskrum. Eftir æfingarnar sagði Stine okkur að við ættum barasta öll heima í dansskóla, svoddan snillingar væru við;-)
Síðan var okkur skipt í sjö hópa. Ég lenti í alþjóðlega hópnum. Með mér í hóp voru Svanhvít frá Íslandi, Anders og Rowan frá Danmörku, Gaz frá Englandi, Zulma frá Kólumbíu, Maria og Alex frá Mexíkó og Anna Lena og David frá Þýskalandi. Allir hóparnir fengu sama verkefnið; að koma með nýjar og ferskar hugmyndir um White Meat City á Vesterbro en planið er að gera þann stað að miðstöð hönnunar og lista í Danmörku. Við höfðum 24 tíma til að útbúa kynningu um hvað við vildum gera til að laða að alls kyns fólk á þennan stað.
Hópurinn, sem samanstóð af ólíku fólki frá alls konar menningarheimum, small strax saman og hópfaðmlög voru tíð. Skuggar okkar í þennan tíma voru krakkarnir á fyrsta ári í skólanum en þau áttu að fylgjast með okkur til auðvelda valið á þeim sem kæmust inn. Þessar elskur höfðu því erfiða hlutverki að gegna að halda pókerfésum alla helgina.
Við gerðum alls konar verkefni inn á milli:
-Kynntum okkur fyrir framan hópinn.
-Björguðum 10 manns úr jarðskjálfta í San Francisco.
-Byggðum hús úr legókubbum án þess að mega tala saman.
-Útbjuggum kvöldmat fyrir hópinn með því að hlaupa út um allan bæ eins og brjálæðingar og reyna að fá frían mat. Það gekk að hluta til:-)
-Sátum í hring og ræddum um vinnuna okkar og hvernig hlutirnar væru að ganga, hverjir hefðu jákvæð áhrif á starfið og hverjir neikvæð. Það var erfitt.
Laugardagur:
Við mættum í skólann kl. 8 og framundan var svakaleg vinna. Við fengum að heyra það eftir daginn að við hefðum verið eins og eldfjall í fullri virkni. Eintómar sprengjur en eitthvað nýtt að myndast. Það var víst rifist um að fá að fylgjast með okkur.
Við unnum ótrúlega vel saman en auðvitað komu upp flækjur sem við urðum þá að leysa. Kynningin okkar átti að vera kl. 17 og klukkan 16.30 vorum við ekki hálfnuð með powerpoint kynninguna okkar og ekki einu sinni byrjuð á skriflegu tillögunni sem við áttum að skila eftir kynninguna. Kaldur sviti er svo mikið understatement, kaos líka. Þarna byrjaði eldfjallið að skíta á sig. Á undraverðan hátt tókst okkur þó að skila af okkur frábærri kynningu, stútfullri af skemmtilegum hugmyndum um White Meat City. Við fengum mjög jákvæð viðbrögð og spennufallið sem kom í kjölfarið var engu líkt. Eftir herlegheitin fengum við kampavín og knús. Um kvöldið fórum við síðan á klúbb, Chocolade Fabrikken, sem var einmitt stofnaður af Kaospilot. Þar drakk ég ótæpilega af kampavíni og skotum, ekki besta blandan en kvöldið var geggjað!!
Sunnudagur:
Þynnka og löng lestarferð.
Ég veit að þessi texti nær á svo takmarkaðan hátt að lýsa þessari mögnuðu helgi. Takið hann og setjið í þúsundasta veldi, þá tekst honum kannski að nálgast upplifun mína.
Ég setti inn nokkrar myndir frá helginni.
Ég elska ykkur!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli