23.12.2005

Þá er ég komin heim á farsældar frónið. Ég var svo glöð þegar ég labbaði út úr Flugstöð Leibba Eiríks í sannkallaðri íslenskri hríð að mig langaði hreinlega til að krjúpa niður og kyssa jörðina. Ég gekk þó ekki svo langt heldur kyssti bara fjölskylduna í staðinn. Aldrei aftur ætla ég að láta tæpa níu mánuði líða á milli þess sem ég kem heim! Aldrei!

Ég hef sem sagt eytt dögum mínum í faðmi fjölskyldu og vina. Ekkert nema yndislegt.

Eitt sem ég tek eftir eftir fjarveruna. Íslendingar eru að drepast úr stressi! Allt snýst um að eiga mest, best og flottast. Ég er nú alveg efnishyggjukona (reyni ekkert að neita því) en fyrr má nú vera. Lífið snýst um meira en vinnu, jeppa og yfirdrátt. Slökum aðeins á. Ég finn fyrir þessu alls staðar, m.a.s. í umferðinni. Það eru allir að fara yfirum á að reyna að komast frá A til B á sem stystum tíma (og ég neita að kenna jólunum alfarið um!). Það tóku svona 30 bílar framúr mér á leiðinni frá Reykjavík til Keflavíkur. Allir að flýta sér og komust kannski á leiðarenda fimm mínútum á undan mér sem keyrði bara í rólegheitunum og hlustaði á hinn yndislega Sufjan Stevens í botni. Platan hans, Illinois, var einmitt valin besta plata ársins af pitchforkmedia.com sem er tónlistarleg biblía mín (reyndar eina biblían sem ég hef lesið...).

Ég vil óska ykkur yndislegra jóla. Megi þau verða laus við stress, ofát og almennt klikkelsi.

Ást og friður,
Milla

17.12.2005

Ég er að koma heim!!!!!

Halló, elskurnar. Á morgun er stóri dagurinn. Ég hlakka svo til! Hef ekkert verið að blibba undanfarið einfaldlega vegna þess að ég hef ekki haft neinn tíma. Af hverju?? Nú er það ykkar að hitta mig og spyrja. Vííííí!

Verð með gamla númerið mitt sem er 863 3499 ef þið hafið gleymt því.

Sjáumst á elsku Íslandi!

3.12.2005

Tjena, tjena menniska!

Ég er komin til Stokkhólms og þetta er æðisleg borg! Við gistum hjá foreldrum Peters sem eru alveg eðal. Ferðalagið uppeftir var þó frekar ævintýralegt á hvíta rúgbrauðinu með maríubjöllunum. Það tók okkur tólf tíma að keyra og þegar við vorum 160 km frá Stokkhólmi bilaði gírkassinn! Við gátum ómögulega sett bílinn í gír og þurftum að stoppa í miðri brekku. Svo heppilega vildi til að löggan keyrði framhjá, stoppaði og dró okkur síðan 300m að næsta bílastæði. Þar sátum við síðan og reyndum að upphugsa leiðir út úr þessu veseni því við erum jú kaospilotar;-) Allt í einu virkaði síðan gírkassinn og við brunuðum af stað en málið var að það var bara hægt að vera í fimmta gír þannig að þegar við komum inn í Stokkhólm þurftum við að sikksakka á milli bíla eins og óð værum. Þetta gekk nú bara þar til við komum að fyrsta umferðaljósinu en þá þurfum við að stoppa og ýta bílnum að næsta bílastæði. Foreldrar Peter komu síðan og sóttu okkur og eftir magnað ferðalag komumst við loks í heimilishlýjuna.

Við fáum vinnuaðstöðu hjá Fluidmindsa en það apparat tengist Bookhouse útgáfunni. Vinnuaðstaðan er ekkert nema frábær en ég er búin að taka fullt af myndum sem ég set á netið þegar ég hef tíma. Okkur gengur mjög vel í verkefninu og erum á fullu alla daga. Við ætlum þó að sletta aðeins úr klaufunum í kvöld og kynnast næturlífi Stokkhólms. Ég hlakka til!

Jæja, þar til næst...