23.12.2005

Þá er ég komin heim á farsældar frónið. Ég var svo glöð þegar ég labbaði út úr Flugstöð Leibba Eiríks í sannkallaðri íslenskri hríð að mig langaði hreinlega til að krjúpa niður og kyssa jörðina. Ég gekk þó ekki svo langt heldur kyssti bara fjölskylduna í staðinn. Aldrei aftur ætla ég að láta tæpa níu mánuði líða á milli þess sem ég kem heim! Aldrei!

Ég hef sem sagt eytt dögum mínum í faðmi fjölskyldu og vina. Ekkert nema yndislegt.

Eitt sem ég tek eftir eftir fjarveruna. Íslendingar eru að drepast úr stressi! Allt snýst um að eiga mest, best og flottast. Ég er nú alveg efnishyggjukona (reyni ekkert að neita því) en fyrr má nú vera. Lífið snýst um meira en vinnu, jeppa og yfirdrátt. Slökum aðeins á. Ég finn fyrir þessu alls staðar, m.a.s. í umferðinni. Það eru allir að fara yfirum á að reyna að komast frá A til B á sem stystum tíma (og ég neita að kenna jólunum alfarið um!). Það tóku svona 30 bílar framúr mér á leiðinni frá Reykjavík til Keflavíkur. Allir að flýta sér og komust kannski á leiðarenda fimm mínútum á undan mér sem keyrði bara í rólegheitunum og hlustaði á hinn yndislega Sufjan Stevens í botni. Platan hans, Illinois, var einmitt valin besta plata ársins af pitchforkmedia.com sem er tónlistarleg biblía mín (reyndar eina biblían sem ég hef lesið...).

Ég vil óska ykkur yndislegra jóla. Megi þau verða laus við stress, ofát og almennt klikkelsi.

Ást og friður,
Milla

Engin ummæli: