4.11.2005

Betra en að vinna...

Það er rólegt kvöld í Árósum eða réttara sagt rólegt kvöld hjá Kamillu í Árósum. Allir hinir eru að fagna komu jólabjórsins. Við Peter og Tone ákváðum hins vegar að taka okkur langþráða djammpásu, alla vega þar til á morgun... Við eyddum þess vegna kvöldinu fyrir framan imbann og horfðum á myndina Mr. Jones með Richard Gere og Lenu Olin. Gere leikur mann með geðhvarfasýki og Olin geðlækninn hans. Einstaklega léleg mynd og illa leikin. Samt horfðum við á hana alla. Það var bara svo gott að þurfa ekki að hugsa. Þegar myndin var búin skiptum við um stöð og áttuðum okkur á því að á sama tíma og við horfðum á hina grútlélegu Mr. Jones var Moulin Rouge á TV2. Æ, æ, æ! Við náðum þó síðast hálftímanum og nokkur sölt tár (en ekki hvað?) féllu.

Síðustu tveir dagar í skólanum hafa verið langir. En góðir. Við fengum til okkar ansi spennandi fólk í heimsókn þ.á.m. hinn virta Johan Galtung. Fyrir þá sem ekki vita er Galtung norskur prófessor og frumkvöðull í rannsóknum á friði og átökum. Hann er heiðursprófessor út um allar trissur og hefur verið sáttasemjari í deilum um allan heim, t.d. Sri Lanka, Afganistan og Ekvador. Hann stofnaði Transcend samtökin sem vinna m.a. að friðsamlegum lausnum á deilum. Maðurinn er 75 ára gamall og enn að. Það er svo gaman og hvetjandi að hlusta á svona reynslubolta og hugsjónafólk tala. Maður fyllist af eldmóð alveg hreint:) Hann talaði við okkur um aðferðir sínar við sáttasamninga. Hann segir að þetta snúist ekki um að einn aðilinn vinni (eins og virðist alltaf vera takmarkið í öllum deilum) og einblínir á aðferðir til að báðir deiluaðilar gangi sáttir frá samningaborði. Ef einn vinnur er alltaf annar sem tapar - og þá er hætta á hefnd. Það er nefnilega hægt að finna upp á einhverju sem er betra en að vinna. Hvað það svo er fer eftir aðstæðum. Magnaður einstaklingur!

En nú er ég þreytt og ætla að fara að sofa, færa sófa. Ég bætti inn nokkrum tenglum hjá elsku frænkum mínum þeim Maríu Júlíu, Guðlaugu og Júlíu en svo er það líka Erla mín Árósamey og fyrrum bekkjarsystir í hagnýtri fjölmiðlun. Við erum búnar að búa í sömu borg í tvo mánuði en höfum ekki enn hist. Sveiattan!

Þar sem barnamyndin af mér sló svona aldeilis í gegn ætla ég bara að láta ykkur hafa meira. Ingi Þór var nefnilega svo elskulegur að skanna inn fyrir mig fullt af gömlum fjölskyldumyndum fyrir fyrirlestur í skólanum. Kamilla sem barn, gjörið svo vel:)



Þarna er ég á jólunum. Veit ekkert hvaða jól. Er hræðileg með svona ártöl nema þegar kemur að fötunum mínum. Þá veit ég sko alveg hvar og hvenær þau voru keypt.

Sjáiði hvað ég á sæta foreldra? Vá, hljómar eins og cheesy Séð og Heyrt fyrirsögn!

Þessi dúkkukjóll passaði svo fullkomlega á hausinn á Inga Þór og ég skemmti mér svo vel við að gera þetta aftur og aftur og aftur.

Ein gömul og góð fjölskyldmynd. Takið eftir fötunum okkar Inga Þórs í stíl. Mamma klára saumaði. Þarna er ég líka handleggsbrotin eftir ansi hættulegan leiðangur upp á fataskápinn í herberginu mínu...

Þetta er einhvern tímann á gamlárskvöld. Ég var svo þreytt en reyndi að þrauka því að maður á jú að vaka lengi á gamlárskvöld. Mjög festive stúlka með hatt...

Engin ummæli: