Það hanga menn utan á glugganum mínum
Það er reyndar ekki vegna þess að þeir eru sjúkir í mig heldur eru þeir sjúkir í að skipta um gler hjá mér. Já, þar sem ég bý við umferðargötu í henni fögru Reykjavík get ég fengið gluggastyrk, sem ég hefi gjört, til að minnka hljóðmengun frá dósunum sem þjóta fram hjá húsinu dag hvern. Ég er mjög ánægð að verið sé að gera þetta en viðurkenni þó að það er í hæsta máta óþægilegt að hafa kalla á stillas fyrir utan gluggann minn. Mér fannst það mjög skrýtið að standa inni í eldhúsi að útbúa salat með tvo kalla fyrir utan gluggann sinn. Ég vissi ekki alveg hvort ég ætti að vinka eða hreinlega bjóða þeim salat með mér. Ég ákvað alla vega að borða frekar salatið inni í stofu en við eldhúsborðið sem er einmitt beint fyrir neðan gluggann.
Af mér er annars allt gott að frétta. Melbæjarskelda var frábær og ég var úti í náttúrunni í tæpan sólarhring. Svaf í tjaldi og var úti á palli fyrir framan sumarbústaðinn allt kvöldið og nóttina. Það ringdi reyndar en ég var bara klædd í regngalla og fílaði mig mega vel. Við spiluðum krokket, grilluðum, dönsuðum, sungum og stofnuðum fyrirtæki... eða alla vega bandalög. Ég var reyndar búin að vera með hálsríg í næstum fjóra daga þannig að allir mínir líkamsburðir og háttalag voru eins og sjálfur Robo-cop hefði tekið sér bólfestu í mér. Svo bætti ekki úr skák að sofa í tjaldi þannig að á sunnudeginum var ég líkamleg rúst. Thelma gaf mér síðan bara eina gula (bólgueyðandi á hæsta stigi) og ég sem tek aldrei verkjalyf varð bara sky high. Bullaði bara við Hilmu á leiðinni heim og sofnaði kl. 20.15! Svaf síðan í tæpa fjórtán tíma og þegar ég vaknaði var hálsrígurinn á bak og burt. Þessar gulu gera sem sagt kraftaverk.
Eftir mikið sukk bæði í mat og drykk hef ég tekið þá ákvörðun að fasta. Ásdís grasagúrú er lærimeistari minn í þessu ferli og ég held að hún sé hætt að nenna að tala við mig í símann vegna þess að ég hringi svona þrisvar á dag í hana. "Bíddu, hvernig var aftur með þessa súpu? Á ég að skera sætu kartöfluna í smáa eða stóra bita???????" Ekkert smá óþolandi lærlingur. Alla vega var fyrsti undirbúningsdagurinn í dag fyrir föstuna miklu eins og ég kýs að kalla hana. Undirbúningstíminn felst í því að borða mjög léttan mat, án allra aukaefna, sleppa mjólkurvörum og brauði og svoleiðis dótaríi. Þetta tekur viku og svo hefst sjálf fastan sem ég býst við að taki aðra viku (ef ég meika það svo lengi, I'll keep you posted.) Ásdís sagði einmitt að hvaða bjáni gæti fastað en aðeins vitur maður gæti klárað föstu. Sem þýðir væntanlega að ég eigi ekki að hlaupa inn á Hamborgarbúlluna og panta einn feitan með osti daginn sem ég klára föstuna. Það myndi líklegast kosta mig dag á klóinu:-/ Það mikilvægasta við þessa föstu er að mæltingarfærin (sem við pínum mörgum sinnum á dag með ruslfæði) fá hvíld og það sem meira er, hreinsast. Á föstunni mun ég sem sagt einungis drekka grænmetis- og ávaxtasafa, te og vatn. Það verður ekki beint veislumatur á borðum hjá mér. Alla vega, ekki halda að ég sé orðin alveg kex. Ég er bara að vaxa úr sukkhamnum og snúa mér í átt að hollari lífsvenjum. Alla vega fram að helgi;-)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli