Maraþon á Heathrow
Þá er ég komin heim í hvunndaginn eftir frábæra ferð til Manchester. Ferðin heim var samt alveg hræðileg. Það var eins og fjármálaguðinn væri að refsa mér fyrir mega greiðslukortafyllerí. Hann hefði þó alveg mátt sleppa því að refsa greyið Inga Þór. Já, alla vega. Við áttum flug frá Manchester til London kl. 18.25 á sunnudaginn og áttum síðan að fljúga til Íslands kl. 21.05. Þetta átti að ganga eins og í sögu en nei... Þegar við komum á flugvöllinn fór ég að skoða betur umslagið með miðanum hans Inga Þórs til Íslands. Þá var bara umslagið tómt! Sæjitt!! Eftir smá stund áttaði Ingi Þór sig á því að hann hafði óvart hent miðanum í ruslið. Ég varð alveg brjáluð og fúl út í sjálfa mig líka vegna þess að ég hafði horft á hann henda miðanum. Við sendum mömmu sos sms og reyndum að hringja í Jo, meðleigjanda Inga Þórs, til að biðja hana um að fara í gegnum ruslið. Sem betur fer reddaði mamma okkur og sagði að Ingi Þór gæti ferðast miðalaus (Gott að eiga mömmu sem vinnur hjá Icelandair). Þá heldum við að að vesenið væri úr sögunni... þar til við sáum að fluginu til London seinkaði um klukkutíma og ofan á það bættist að ekki er samningur milli British Airways og Icelandair þannig að við gátum bara tékkað töskurnar okkar inn til London en ekki alla leið eins og best hefði verið. Þegar við loksins fórum í loftið kl. 19.20 vorum við orðin ansi svartsýn og sáum fram á að þurfa að gista á Heathrow og ná morgunfluginu heim. Það var samt enn smá sjéns. Þegar við lentum hlupum við eins og fætur toguðu að farangursbandinu og þurftum að bíða heila eilífð (að okkur fannst) eftir tuðrunum. Þegar þær loksins komu hröðuðum við okkur að Icelandair innritunarborðinu þar sem steik ársins beið okkar (Æ, hún var samt engin steik greyið, bara ný í djobbinu.). Á þessum tímapunkti voru tíu mínútur í að flugvélin færi af stað. Ég hef aldrei verið jafn stressuð á ævi minni. Svo var auðvitað megavesen að innrita Inga Þór miðalausan. Á endanum fengum við bara að innrita tvær töskur (skil ekki enn af hverju því við vorum ekki með yfirvigt) þannig að Ingi Þór þurfti að hlaupa með bakpoka á bakinu, bongótrommur í einni og 20 kg ferðatösku í hinni. Og ég meina hlaupa! Við hlupum svona 1 km og svo loksins þegar við komum út að hliði, fimm mínútum eftir að vélin hefði átt að fara af stað, stóðu bara allir sallarólegir vegna þess að það var ekki enn byrjað að boarda fokkans vélina. Þá hafði bara enginn sagt okkur að það yrði seinkun á fluginu. Helvítis pakk!! Þannig að við stóðum þarna drullusveitt með ca. 40 kg í handfarangur. Þetta var rosalegt. Þrátt fyrir þetta áttum við hið ánægjulegasta flug. Ég hlustaði á tónlist, las Mojo og bölvaði ferðalögum í sand og ösku...;-)
Þrátt fyrir stressandi heimferð var dvölin í Manchester frábær. Ég verslaði auðvitað eins og brjáluð kona, þ.á.m. 20 nýja geisladiska! Ingi Þór var búinn að þrífa þriggja hæða húsið þeirra hátt og lágt kvöldið áður en ég kom. Hann handskrúbbaði meira að segja baðherbergisgólfið með hreinsiklútum:-D Það var nú ekki mikið um djamm heldur vorum við bara rosa mikið að hafa það gott saman. Rifja upp gamla tíma og fylla inn í götin á því sem gerst hafði frá því um jólin. Á 17. júní héldum við Ingi Þór matarboð fyrir Jo, Rick, Scmian og Önnu. Svo fórum við á stað sem heitir Punana sem spilar frábæra fönktónlist og drukkum kokteila. Föstudagurinn fór bara í bæjarferð og rólegheit. Við fórum í föndurbúð og keyptum alls konar dót til að skreyta boli. Við vorum hins vegar alveg búin á því um kvöldið og horfðum bara á dvd. The Graduate varð fyrir valinu og svo Harold & Maude. Tvær klassamyndir. Á laugardeginum pökkuðum við öllu draslinu hans Inga Þórs saman vegna þess að hann þurfti að flytja út úr húsinu áður en við fórum til Íslands. Það var einmitt kvöldið sem Ingi Þór henti óvart flugmiðanum sínum. Hann sagði meira segja við mig „hey, hér er gamli flugmiðinn minn,“ og henti honum í ruslið. Algjörir lúðar. Um kvöldið eldaði Jo týpískan enskan dinner fyrir okkur, english roast, og við átum á okkur gat. Síðan fórum við á mjög skemmtilegan stað sem heitir Star and garter. Það var svona þemakvöld sem heitir smile og þá er spiluð alternative rokk músík á efri hæðinni og svo tjillað á neðri hæðinni. Við hófum auðvitað kvöldið á pool leik en nú er ég orðin háð pool og svo er ég líka asskoti góð í því, þetta var ekki bara fluke þarna fyrsta kvöldið á Hardy's Well. Við kíktum aðeins upp og þá var verið að spila Interpol, mjög flott. Reyndar fórum við Ingi Þór frekar snemma heim en við ákváðum að vera ekki þunn á sunnudeginum. Það var auðvitað það besta sem við gátum gert vegna þess að það hefði orðið helvíti á jörðu að bæta þynnku ofan á martöð sunnudagsins. Sæjitt!
Lokaniðurstaða: Mig langar aftur til Manchester! Þar er gaman að vera.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli