Ungfrú hallærispía 2004
Af hverju er það aldrei svona í fegurðarsamkeppnum:
Næsta á svið fáum við Kamillu Ingibergsdóttur en hún er 25 ára og kemur úr Keflavík. Hún klæðist kjól af útsöluslánni í Hagkaupum og skartið er frá Ice in a bucket. Hún þjáist af bulimíu á háu stigi og mun að öllum líkindum fá húðkrabba vegna óhóflegrar notkunar ljósabekkja. Hún hefur mikinn áhuga á gervinöglum og hyggur á frama í ásetningu þeirra. Gefum henni gott klapp!!
Ég tek það fram að þetta er auðvitað bölvað kjaftæði en vildi nota þetta litla dæmi til að sýna fram á fáránleika fegurðarsamkeppna. Ég var nefnilega að horfa á Ungfrú Reykjavík á Skjá einum í gærkvöldi og maður fékk aldrei að vita neitt um þær. Sá þær bara á brókinni og svo í fínum kjólum sem komu væntanlega ekki úr Hagkaupum. Svo var samt einhver gaur frá Séð og heyrt í dómnefnd að tala um að sigurvegarinn þyrfti að vera gáfuð. Alla vega ekki nógu gáfuð til að segja nei við svona vitleysu.
Upphafsatriðið var sérstaklega hallærislegt en stúlkurnar voru látnar mæma eitthvað lag. Af hverju voru þær ekki látnar gera eitthvað sem sýndi þeirra eigin hæfileika í stað þess að dilla sér við músík einhvers annars og þykjast spila á gítar eða trommur. Það hefði jafnvel mátt kenna þeim nokkur grip og síðan hefðu þær bara getað tekið lagið sjálfar. Já, svei mér þá. Svo er líka annað. Hvað gerir Ungfrú Ísland eiginlega? Ég barasta skil þetta ekki, skil þetta ekki!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli