Í kvöld riðlast tilvera mín
Sumir búa í material world, aðrir búa í mad world og enn aðrir, fólk eins og ég (eða kannski bara ég), búa í veröld vanans. Já, veröld vanans er góður staður. Þar kemur ekkert á óvart og allir hlutir eru á sínum stað. Þar er líka mjög hreint. Ég hef aldrei verið sveimhuga og mun seint teljast nýjungagjörn en í kvöld mun allt þetta breytast. Já, eins og glöggir lesendur hafa kannski áttað sig á er fimmtudagur og eins og enn gleggri lesendur hafa áttað sig á er Sex and the city á dagskrá í kvöld sem þýðir fótabað og freyðivín (I wish!) hjá Kamillu litlu... En nei, ég verð ekki heima í kvöld... ég verð að vinna á... Stúdentakjallaranum. Já, þrátt fyrir að vera vanaföst hjálpa ég líka vini í neyð og þegar hún Gunnhildur Eyja hringdi í mig og bað mig um að vinna gat ég ekki sagt: „Nei, ég get það ekki vegna þess að ég þarf að horfa á Sexið og fara í fótabað.“ Þannig að ég fór til hennar Hilmu minnar í gær með tvær videóspólur og sýndi henni hvað hún ætti að gera í því viðkvæma ferli sem kallast Að taka upp Sex and the city fyrir Kamillu Ingibergsdóttur. Ef henni tekst þetta hefur hún fullkomnað vináttu okkar þó svo að við notum ekki sömu skóstærð en við miðuðum eitt sinn fullkomnun vináttu okkar við það...
Ég kvíði ekki beint fyrir kvöldinu enda hef ég mikla reynslu af dælingu bjórs. Gerði það í heila 24 tíma (reyndar skipt niður á vaktir) á Hróarskeldu 2003. Reyndar mætti segja að helmingur bjórsins hafi farið ofan í mig en ég hafði glas við hliðina á mér sem ég drakk alltaf úr. Mjög útsjónarsöm. Bjórtjaldið okkar var einmitt við helvítis teknótjaldið þannig að ég er öllu vön. Var með eyrnatappa allan tímann og komst að því að það er betra að hafa eyrnatappa þegar með fer á suma tónleika. Það dempar aðeins hljóðið og gerir það fallegra. Ég myndi til dæmis nota eyrnatappa á Iron Maiden en ekki á Will Oldham, if you know what I'm saying.
Jæja, það er 1. apríl og ég trúði næstum því helvítis Bruce Springsteen og Simon Cowell fréttunum í blöðunum. Áttaði mig á því nokkrum mínútum seinna og fannst þetta bara helvíti gott djók. Ég hef reyndar alltaf verið frekar trúgjörn. It runs in the family, held ég.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli