Bland í poka
Það er runnin af mér mesta reiðin eftir stappið við HÍ. Þannig er mál með vexti að ég var með fullt af aukaeiningum eftir skiptinám mitt í DK. Til að nýta eitthvað þessar aukaeiningar vildi ég láta taka út tvo kúrsa til að nota einhvern tímann seinna. Ég talaði við fullt af konum á skrifstofu félagsvísindadeildar og þetta átti ekki að vera neitt mál þar sem ég var með heilar 15 aukaeiningar. Svo kom annað á daginn þegar ég fékk fjandans skírteinið í hendurnar. Þá var Mannkynssaga IV og Kynferði og hnattvæðing enn inni á ferlinum og ekki að sjá að ég hefði nokkurn tímann stigið fæti inn í danska Blaðamannaskólann. Bölvað vesen! Ég hringdi í konu sem átti að geta hjálpað mér en var vægast sagt ekki hjálpfús. Nú er ég að vona að hægt sé að lagfæra þetta. Annars lýsi ég yfir frati á HÍ, þá annars ágætu menntastofnun.
Ég hef komist að því að ég er ekki eins iðinn blibbari og ég var hér á árum áður... hvort það sé vegna þess að minna er að gerast í mínu lífi eða að ég sé að missa áhugann á blibbinu veit ég ekki.
Ég fór á forsýningu á Love is in the air á fimmtudaginn var. Æðisleg mynd. Jafn einlægan hóp af fólki hef ég varla séð á hvíta tjaldinu áður. Sjáið hana. Svo var eitthvað fancy pancy partý eftir myndina á Apótek. Þar var boðið upp á snittur og léttvín. Léttvínið var nú frekar lúmskt eða öllu heldur þjónarnir sem gerðu ekki annað en að bæta í hjá manni. Ég veit eiginlega ekki hversu mikið af hvítvíni ég drakk það kvöldið. Alla vega var ég orðin rjóð í kinnum og einkar brosmild þegar leið á kvöldið. Ekki sama vélmennið og ég er dags daglega (?!).
Á laugardaginn fór ég með Ölmu og Dögg að hitta Þórhildi á árshátíð á Þjóðleikhúskjallaranum. Það var fínt.
Hápunktur helgarinnar var síðan videógláp á laugardagskvöldið. Anna og Freyr fóru á árshátíð RÚV þannig að ég var ein heima. Horfði á Down with love, Hollywood ending og Lilya 4-ever. Ég gerði þau mistök að horfa seinast á Lilya 4-ever og mun ég seint bíða þess bætur. Grét mig í svefn það kvöldið, ein og yfirgefin. Boo hoo!
Ég hef ætlað mér ó svo lengi að fara í hinsegin bíó en hver pantaði þetta veður?! Ég þori vart út úr húsi.
Árshátíð Röskvu er á laugardaginn og þemað er bleikt. Bleikt segi ég!! Kamilla og bleikt eiga ekki saman.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli