7.11.2003

Þá er barasta komin helgi aftur

Um daginn var ég að væla út af heimþrá. Í dag finnst mér allt of stuttur tími þangað til ég fer heim. Ekki það að mér finnist ekki yndislegt að ég sé að fara heim. Okkur Söru gengur vel með greinina okkar. Við erum komnar með fullt af efni og þetta er mjög áhugavert. Kannski að ég skelli henni bara á netið þegar hún er tilbúin. Þá getið þið lesið eitthvað ykkur til fróðleiks svona til tilbreytingar;-)

Langflestir úr bekknum okkar eru að fara í ferðalag um helgina. Ferðinni er heitið á Skagen en við Sara ákváðum bara að vera félagsskítar og halda okkur í Árósum. Við erum líka að fara að "see a man about a horse" á morgun. Nei, nei, við erum að fara að taka viðtal við Frede Farmand Rasmussen nokkurn en hann er einn af þeim sem er á svarta listanum sem við erum að skrifa um. Hann virðist mjög áhugaverður maður. Í gær sagði hann við mig í símann: "Þú veist að ég er mjög sérstakur maður." "Uhh, já," sagði ég, "það er einmitt þess vegna sem við viljum tala við." Þetta verður örugglega mjög áhugavert. Hann ætlar meira að segja að koma til Árósa að hitta okkur en hann á heima í Auning sem er klukkutíma í burtu með rútu. Reyndar er hann ekki bara að koma til að hitta okkur heldur líka til að hitta dóttur sína...

Við ætlum bara í bíó í kvöld að sjá Down with love. Held að þetta sé ágætis feel-good-mynd eða það vona ég alla vega. Á morgun er síðan stórt partý uppi í skóla. Það verður svona M*A*S*H* þema og allir eiga að mæta í felulituðum fötum. Þar sem ég á ekki mikið af svoleiðis fatnaði ætla ég bara að mæta sem mitt ofurgellu sjálf. Ekkert að vera að fela það neitt. Ég keypti mér svo fína peysu um daginn og mér finnst þetta kjörið tækifæri til að vígja hana!

Hún Brynja mín er síðan að selja fjaðraskraut í koló á morgun. Endilega kíkið á hana og kaupið ykkur eitthvað fallegt. Ég á eyrnalokka sem hún bjó til handa mér og ég get sko sagt ykkur að þeir eru ekki aðeins sjúklega flottir heldur einnig góð veiðifæri. I call them my lucky earrings;-)

Jæja, my lovelies, núna ætla ég að fara í bæinn. Við Sara ætlum að kíkja örstutt í búðirnar...

Eigið yndislega helgi, fögru lesendur!!

Engin ummæli: