17.11.2003

Alheimsorkan og Sykurbeib

Haldiði að þetta hafi bara ekki verið yndislegasta helgi sem Kamilla litla hefur átt í langan tíma?! Jú, jú, alveg hreint ljómandi gott. Ég vaknaði eldsnemma á laugardagsmorgni og var ekki enn farin að trúa því að innan fimm tíma myndi ég hitta Hr. Ingiberg og elskulega konu hans, Guðrúnu. Ég hafði pakkað vel og vandlega tæpum 40 kílóum af dóti. Ekki til þess að nýta yfir helgina heldur til að senda mömmu og pabba með það heim til kæra Íslands. Ég burðaðist með þetta allt niður á lestarstöð, með hjálp strætó að vísu og skellti mér um borð í lestina. Las eitt stykki bók á leiðinni, nefnilega The City of Glass eftir Paul Auster. Asskoti góð. Loks komst ég upp á Kastrup og fór út og fyrir frábæra tilviljun rakst ég nánast strax á mömmu og pabba. Vúbbíííí! Það voru sko fagnaðarfundir, skal ég ykkur segja. Faðmlög og gleði, kossar og alsæla! Við hentumst um borð í lest og niður í bæ á hótelið sem ma og pa ætluðu að gista á. Ég tæmdi mínar töskur og fyllti þeirra og svo fengum við okkur pizzu. Ulla og Esben (eða Ebeníser eins og pabbi kýs að kalla hann eftir nokkra bjóra) höfðu boðið okkur í heimsókn þannig að við kíktum á þau í kaffi og með því. Eftir það fórum við í músíkbúð fyrir pabbaling þar sem hann gat seðjað diskahungrið. Á þessum tímapunkti vorum við orðin soldið lúin þannig að við ákváðum að skella okkur á kaffihús. Robert's Coffee varð fyrir valinu enda með eindæmum indæll staður. Við tókum strætó niður á Ráðhústorg og þar voru rosa tónleikar sem einhver ný útvarpstöð var að halda. "Rokkdrottningin" eina sanna, Sanne Salomonsen var þar að trylla lýðinn. Henni tókst þó ekki alveg að trylla okkur þannig að við skildum hana eftir með öskrandi áhorfendaskarann grátbiðjandi um meira. Á Robert's Coffee voru þægilegir stólar, gott kaffi og reggae músík. Stoppuðum þar í væna stund og á leiðinni upp á hótel löbbuðum við fram hjá Ráðhústorginu og haldiði að Sugababes hafi ekki verið að spila. Við hlustum aðeins á þær stöllur áður en leið okkar lá niður á hótel aftur til að klæða okkur í ólettubuxurnar til að geta borðað meira. Næst fórum við nefnilega á Hereford Steakhouse og fengum þar dýrindis steik. Þarna var auðvitað allt morandi í Íslendingum í helgarferð í Kóngsins Köben. Við reyndum bara að leiða þá hjá okkur;-) Eftir matinn hringdum við í Inga Þór og skiptumst á að spjalla við hann, alveg yndislegt. Hef ekki heyrt í honum röddina í svo langan tíma. Þar sem ég hef ekki borðað svona þungan mat í langan tíma var ég mjög þreytt eftir matinn. Við ákváðum bara að kaupa nokkra bjóra og skella okkur upp á hótel. Pabbi kallinn var orðin vel í því og reytti af sér brandarana. Alheimsorkan var rædd í tengslum við borðstofuborðið heima og "rifist" var um svarta glimmermálverkið sem Karen Cross málaði. Þetta var æðislegt! Mér finnst meira að segja besti tími heimsóknarinnar hafa verið þegar við vorum þrjú saman á hótelinu. Enginn utanaðkomandi truflun og quality time með the parental units. Elska ykkur!!!

Eitt fyndið: Þegar ég fór frá mömmu og pabba um kvöldið gáfu þau mér fyrir leigubíl. Mamma fylgdi mér niður og ég ákvað að fá mér sígarettu. Svo kom bíllinn og ég arkaði út með sígarettu í munnvikinu, ferðatösku undir arminu og veskið mitt í hinni hendinni. Þegar ég ætlaði að henda sígarettunni datt hún ekki á jörðina heldur ofan í töskuna mína! Sæjitt. Ég var svo slow vegna þess að ég var með svo mikið af drasli að ég náði ekki að gera neitt strax. Það endaði með því að ég henti ferðatöskunni í mömmu og hvolfdi úr veskinu á götuna. Leigubílstjórinn, indæll gaur frá Sómalíu, horfði á mig og hugsaði örugglega með sér: "Þarna er ein klikk." Að lokum náði ég að drepa sígarettuna áður en hún náði að drepa innihald veskisins míns og ég hélt heim til Ullu. Okkur hafði verið boðið á verðlaunaafhendinguna á kvikmyndahátíðinni sem var að ljúka hér í Kbh og í eitthvað eftirpartý á toppi Illum. Svaka VIP með öllu fræga fólkinu. Það var ekkert smá gaman. Reyndar veit ég ekkert hvort það hafi verið gaman vegna þess að ég steinsofnaði á sófanum hjá Ullu og hún festist yfir einhverri indverskri mynd. Ég ætla samt ekkert að gráta það neitt, kvöldið hefði nefnilega ekki getað orðið fullkomnara!

Í gær hittum við Ulla hana Þórhildi mína á Bang & Jensen í brunch. Það var æðislega ljúft. Sátum og kjöftuðum og átum á okkur gat. Ulla þurfti síðan í skúringardjobbið þannig að við Þórhildur fórum bara á annað kaffihús til að kjafta. Til að toppa helgina hringdi Birta síðan í mig í gærkvöldi.

Það er aldeilis!!!

Engin ummæli: