Kamilla verður ekki heimilislaus. Vúíííí!
Ég er komin með herbergi. Ó, beibí. Það er í Brabrand sem er reyndar hálfgert gettó eða svo segja íbúar Árósa sem ég hef talað við. Helsta ástæðan fyrir því er sú að 90% íbúa þessa hverfis eru innflytjendur. Mér finnst það bara plús! Alla vega, stelpan sem ég leigi herbergi af er að fara til Kína að læra kínversku. Mjög spes stelpa og greinilega mikill aðdáandi Kína. Veggirnir hjá henni voru gjörsamlega plasteraðir með kínversku dótaríi. Ég fæ öll húsgögnin hennar og mun gera þetta að kósý hobbittaholu eins og mér einni er lagið. Húsið er byggt 1969 og það hefur ekki verið mikið gert fyrir það síðan. Versta er að ég verð ekki með internettengingu eins og hér í Kirsuberjagarðinum. Aftur á móti verð ég aðeins 4-5 km frá miðbænum í staðinn fyrir 12,5.
Jamm, nú kemur smá frá helginni sem var ofurpökkuð eins og venjulega:
Föstudagur:
Þar sem Danir eru miklir bjórunnendur var byrjað að sötra bjór í skólanum kl. 13.30. Það er sko ekkert verið að tvínóna við hlutina í DJH. Þar er m.a.s. hægt að fá bjór í matsalnum. Við sátum úti á grasi með einum kennaranum okkar og drukkum bjór og kjöftuðum. Síðan lá leið okkar í bakgarðinn hjá Rasmus sem er einn bekkjarfélaga okkar. Við keyptum þrjá kassa af bjór og sátum síðan fram á kvöld og höfðum það næs. Okkur var líka boðið í partý til eins skólafélaga okkar og við kíktum þangað. Þar var auðvitað drukkin meiri bjór og við enduðum á hverfisbarnum þar. Píluspjaldið átti hug minn allan þannig að ég var varla viðræðuhæf enda efni í fyrsta flokks píluspilara (segir maður það?). Gamanið tók enda þegar klukkan var að verða þrjú og við þurftum að taka síðasta næturstrætó heim. Hann var fullur af ölvuðum ungmennum... þ.á.m. mér, ég er nefnilega stúlka/kona.
Laugardagur:
Gott að sofa út, maður! Fórum á ströndina í sólbað og tókum með grill og pylsur. Ljúft. Hittumst síðan nokkrar stelpur heima hjá mér í sveitasælunni og fengum okkur nokkra drykki. Þá var ferðinni heitið í miðborgina í götupartý. Æðislegt! Lítil gata full af sófum, lömpum og fólki. Ódýr bjór og góð músík. Þar hitti ég tilvonandi eiginmann minn;-) Johnny Depp look-alike úr arkitektaskólanum. Þarf að kanna þennan geira betur!
Sunnudagur:
Mygla og þvottur. Punktur og basta.
Í dag byrjuðum við fyrir alvöru í skólanum. Kúrs sem heitir International News Gathering. Kennarinn okkar heitir Eva Arnvig og hefur verið blaðamaður í 32 ár. Hörkutól, skal ég ykkur segja. Hún hefur verið mikið í Afganistan, bæði fyrir og eftir 9/11 og það er ótrúlega áhugavert að hlusta á hana. Algjör viskubrunnur sem ég get lært mikið af. Það er nóg að gera, skilaði grein í dag og þarf að skila annarri á fimmtudag. Svo flyt ég á mánudaginn og þriðjudaginn. Á miðvikudaginn förum við síðan til Kbh í námsferð. Heimsækjum Zentropa, SÞ skrifstofu, Extra Bladet (!) og margt fleira. Ég ætla að lengja ferðina aðeins og vera frá miðvikudegi til sunnudags. Þá get ég hitt Brynjuna mína, Ullu og farið í afmælispartý til Berlindar og Þórhildar. Gaman, gaman!
Þar til næst... over and out.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli