Ekki boðar þetta gott...
Ég er búin að sitja sveitt við símann að hringja í hugsanlega leigusala. Af þeim níu sem ég er búin að hringja í eru átta búnir að leigja út herbergin. Sæjitt! Einhvern veginn hef ég það samt á tilfinningunni að þetta eigi allt eftir að reddast en ég þarf samt sem áður að flytja héðan út í enda ágúst. Ég sagði upp herberginu í fyrradag. Reyndar eru svínin sem ég bý með búin að þrífa neðri hæðina þannig að eldhúsið er komið í sæmilegt horf. Ég meika samt ekki að búa hérna. Þetta er svo mikið úti í rassgati! Það tekur mig til dæmis 35 mínútur að komast í skólann og ég þarf að taka tvo strætóa. Alla vega, ég hef ákveðið að taka einkunnarorð yngri bróður míns ástsæls til fyrirmyndar og segi því bara... Þetta reddast. Þetta danska mentalitet er að hreiðra um sig í fullkomnunarsinnuðum hugsanagangi mínum. Ég tek þessu bara öllu með jafnaðargeði en er jafnframt að skíta á mig úr stressi. Vissi ekki að það væri hægt að gera þetta tvennt í einu...
Alla vega, í gær var ég búin að pikka og pikka og ýtti svo á vitlausan takka þannig að allt hvarf. Nú ætla ég að gera heiðarlega tilraun til þess að endurtaka það sem ég sagði í gær. Ég er reyndar ekki í eins góðu skapi og þá en þið reynið að afsaka...
Mánudagur:
Eftir langt strætóferðalag úr sveitinni kom ég í fyrsta skiptið í nýja skólann minn. Hann er vægast sagt ÆÐI! Draumur hvers fjölmiðlunarnema. Allar nýjustu græjurnar og upptökustúdíó á stærð við það sem ég sá einu sinni hjá RÚV. Bloody marvee. Frábærir kennarar og góður andi. Bráðum fyllist síðan allt af sætum skólastrákum og þá verður dæmið fullkomnað;-) Um kvöldið fór bekkurinn (sem er frábær og fullur af pælandi fólki en þið munið kannski að ég er kona sem pælir!) út að borða saman í boði skólans. Með okkur var hópur fólks sem er á útvarpsnámskeiði hér í rúman mánuð. Þau koma frá Sambíu, Úganda, Ghana, Nepal og Sri Lanka en í mínum bekk eru stelpur (einn strákur!) frá Kanada, Bandaríkjunum, Baskalandi, Eistlandi, Svíþjóð, Finnlandi og Noregi. Þetta var sem sagt mjög fjölmenningarlegt kvöld. Frábært að fá að tala við lið frá mismunandi menningarheimum um þeirra sýn og reynslu af fjölmiðlum.
Þriðjudagur:
Við fengum kynningu á bókasafni skólans, tölvuveri og svoleiðis. Dagurinn fór mestmegnis í það en síðan fórum við í heimsókn á Jyllands Posten sem er stærsta blaðið hér í Danmörku. Ég fór síðan niður í bæ og og keypti rj45 kapal og húkkaði síðan upp netinu hjá mér með því að setja einn endann á kaplinum í vegginn og hinn í tölvuna, mjög erfitt verk sem tók um tvo tíma;-) Kvöldið fór í netsafari.
Smá innskot á meðan ég man: Strætó í Árósum er mjög skrítið fyrirbæri. Maður fer inn í strætó aftast og út fremst, enginn fylgist með hvort maður borgar eða ekki og ég barasta skil þetta ekki. Er samt strangheiðarlegur borgari og því búin að kaupa mánaðarkort annars færi ég einfaldlega á hausinn.
Eitt enn. Er að fatta það hvað þetta blibb er sniðugt fyrir mig. Nú á ég alltaf eftir að muna eftir því sem ég gerði hér í DK, nánast upp á dag. Alla vega, áfram með smérið!
Miðvikudagur:
Gærdagurinn var frábær. Við fórum í heimsókn í Testrup Lýðháskólann. Rosalega eru lýðháskólar sniðugir. Engin próf, engar gráður. Ungt fólk fer bara á eigin forsendum og gerir þetta fyrir sjálft sig og þ.a.l. vel. Það býr saman og eyðir öllum sínum tíma saman og margir Danir segja þetta besta tíma lífs síns. Ég get vel trúað því. Mig langaði varla að fara eftir einn dag þarna. Það er hægt að læra allt þarna. Heimspeki, bókmenntir, söng, leiklist, útvarpsþáttagerð, karate, eftirréttagerð, stuntbrellur, myndlist og svo margt meira. Við fengum að sjá fullt sem fólkið var að gera, þ.á.m. 10 mínútna tónlistarútgáfu af Hringadróttinssögu (!). Svo hittum við líka stráka sem voru að læra að búa til eftirrétti og voru í óða önn að búa til sítrónuís fyrir partýið sem er hjá þeim í kvöld. Æðislegur dagur! Nú skil ég fullkomnlega af hverju ungt fólk fer í svona skóla!
Um kvöldið var mér, Kristin og Lindu (norskar bekkjarsystur mínar) boðið í mat hjá tveimur nágranna okkar, nefnilega þeim Michael og Andrew. Michael og Andrew eru suður-afrískir og danskir. Mamma þeirra er dönsk og pabbinn þýskur/suður-afrískur. Dágóður kokteill þar. Þeir bjuggu til rosa gott spaghetti sem ég borðaði af bestu lyst þrátt fyrir overdose af spaghetti í barnæsku (koss til þín, mamma mín! Gat nefnilega ekki borðað spaghetti og lasgne í mörg ár vegna þess að ég fékk svo mikið af því sem barn.). Við áttum góða kvöldstund saman, borðuðum úti vegna þess að veðrið var æðislegt og er það enn. Ég var samt svo þreytt að ég þurfti að fara snemma að sofa. Ég bauð öllum góða nótt og fór inn til mín. Stuttu seinna bankaði Michael upp á hjá mér til þess að bjóða mér góða nótt. Aftur! Ég held að Michael sé pínku skotinn í Kamillu litlu en hún hefur barasta engan áhuga á honum:-/
Fimmtudagur:
Í dag fórum við í ráðhúsið. Það er hannað af Arne Jacobsen og svona líka svaka flott. Þegar átti að byggja það voru reyndar mikil mótmæli. Arne er nú ekki þekktur fyrir hefðbundinn stíl og þetta var á stríðsárunum. Fólk var ekki alveg tilbuið fyrir nýstárlegan stíl þessa mikla snillings. Píndu hann til að hafa turn í ráðhúsinu sem hann hataði víst allt sitt líf. Ég hélt líka að það myndi líða yfir mig þarna uppi. Lofthræðsla mín hefur nefnilega versnað svakalega á efri árum (Ha!) þannig að ég stóð bara við stigann og ríghélt í hann með allir hinir hlupu um og skræktu af gleði. Leið mun betur þegar ég kom aftur niður. Nú er ég búin að eyða allt of löngum tíma í að reyna að finna mynd af ráðhúsinu en ekkert gengur. Greinilega ekki mín sterkasta hlið:-/ Eftir þetta var smá ferð um borgina en ég nennti ekki að fara. Þurfti að fara í bankann og svoleiðis og finna út hugsanleg herbergi til að leigja. Það hefur sem sagt ekki gengið svo vel þannig að ég veit ekkert hvað mun gerast...
Í kvöld förum við í Miðstöð alþjóðlegra nema og fáum að sjá hana, drekkum kannski smá bjór og hver veit... bless í bilínos!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli