Það er stórt batterí að eiga hjól í Danmörku
Það þarf lugt að framan og aftan annars hendir löggan manni bara í steininn... Svo þarf alltaf að vera að læsa fáknum þannig að honum verði ekki stolið (reyndar er það góð regla hvar sem maður er staddur). Svo þarf maður að fara á hjólinu á djammið vegna þess að allt er svo langt í burtu. Það var frekar skrítin tilfinning í gær að vera uppdressuð og fara síðan út og taka hjólið með. Mér fannst það ekki alveg passa:-/
Í gærdag fórum við út um allar trissur. Við náðum í Kasper, litla frænda hennar Ullu, á leikskólann. Yndislegt barn. Mamman dönsk og pabbinn enskur þannig barnabablið hans er frekar skrítið. Stundum var eins og hann væri að tala arabísku. Svo talaði ég bara íslensku við hann og við urðum mestu mátar. Reyndar held ég að súkkulaðið sem ég gaf honum hafi átt stóran þátt í því:-)
Ég var komin heim um sexleytið og fékk mér smá kríu. Svo lá leiðin á djammið. Við ákváðum að eyða kvöldinu á Vesterbro og byrjuðum á litlu galleríi sem fólk sem Ulla þekkir rekur. Þar var verið að opna sýningu. Við komum reyndar soldið seint en hittum þar fólk sem borðaði morgunmat með okkur 1. maí. Það var frítt kampavín og rauðvín þannig að við lágum í því. Eftir það fórum við á stað sem heitir Riesen og er á hliðargötu út frá Istedgade. Pínku ponsu staður og alltaf stútfullur af fólki. Skidegodt, mand! Þar drukkum við aðeins of mikið af gini og hittum síðan Sissa. Hann kom til að hitta okkur og það var gaman að hitta smá íslenskt blóð. Reyndar finnst Sissa svo gaman að tala dönsku að hann vildi bara helst tala við mig á dönsku. Ég var ekki alveg á því. Eftir Riesen fórum við aftur á Norrebro og vorum búin að heyra af partýi í einhverri gamalli kirkju. Það var samt allt lokað og læst þegar við komum þannig að við fórum á eitthvað skítapleis í smástund. Svo áttuðum við okkur á því að við vorum svo fullar að koddinn væri bara besta hugmyndin. ZZZZzzzz...
Á mánudaginn verð ég að finna mér vinnu. Við gerðum lista yfir hugsanleg djobb og ég verð bara að þræða staðina. Reyndar sá ég auglýsingu um starf í lítilli fatabúð í götunni hennar Ullu. Ég ætla að tjékka á því. Maður þarf nú varla að kunna mikið í dönsku til að segja fólki að tiltekin flík sé "voða mikið þú." Du ser meget degligt ud i blusen...
Well, kids. Ætla að hrjóta aðeins núna. Er að fara út að borða í kvöld og líklegast á djammið eftir á.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli