27.8.2006



Ég skal blibba!

Sunnudagur. Hef afrekað margt í dag. Þrifið íbúðina hátt og lágt, þrifið gluggana í herberginu mínu að innan og utan, farið í fótabað og naglalakkað mig. Auk þess hef ég borðað heilan nachos poka og horft á sjónvarpið. Og klukkan bara 7! Hahaha.

Ég er búin að vera í Árósum í viku. Góða viku. Það var gaman að byrja aftur í skólanum en þreytandi. Ég var búin að gleyma hvað það er þreytandi að vera í kennslustofu frá 9-16. Þannig að fyrstu dagana svaf ég ósköp mikið, bæði á nóttunni og daginn. Ég held líka að ég hafi kannski bara verið pínku þreytt eftir sumarið. Það að flytja átta sinnum og búa í ferðatösku tók greinilega aðeins meiri toll en ég hélt. En nú er ég komin aftur í sæta herbergið mitt og hlakka til að fara í skólann á morgun. Vei!

Róm var æði! Fín blanda af túrisma, afslöppun, verslunarleiðöngrum og djammi. Við Kathrine erum einstaklega góðir ferðafélagar og höfum hugsað okkur að gera þetta að árlegum viðburði. Við ætlum þó ekki til Rómar á hverju ári;) Það er svolítið spes og stundum ógnvekjandi að vera ung kona og ljós á hörund á Ítalíu. Karlarnir þar eru something else. Þeir mæla mann út frá toppi til táar, brosa og segja ciao bella. Okkur Kathrine fannst þetta skemmtilegt til að byrja með en þegar karlmenn á aldur við feður okkar voru farnir að elta okkur niður götuna, úkraínskur maður sem talaði ekki orð í ensku var búinn að hringja í vin sinn til að læra að segja "Will you have a drink with me?" og lögregluþjónar á vakt bökkuðu bílnum sínum 30 metra til að reyna við okkur að þá, já þá fór okkur að hætta að lítast á blikuna. Ég er farin að kunna að meta norrænu víkingana mína sem reyna barasta ekki við stelpur, heldur detta á þær á skemmtistöðum, sauðdrukknir og troða tungunni upp í þær. Nei, það er líka vonlaust. Mig vantar einhvern milliveg. Hvert á ég að fara? Hvaða land skjótið þið á? Ég held nefnilega að það verði næsti áfangastaður minn...

Alla vega. Við gistum hjá Pierluigi í fimm nætur. Þá dó amma hans og skiljanlega þurftum við að finna okkur annan stað. Við vorum svo heppnar að finna sætasta hótelið í Róm og vorum þar í þrjár nætur í lúxuslífi. EInn daginn fórum við á ströndina. Þar voru mestmegnis miðaldra ítalskar konur og svo brúnar að mér leið eins og albínóa við hliðina á þeim. En þær voru feitar. Feitar en rokkuðu feitt í bikiníum. Líst vel á þær og tek þær sem fyrirmynd á efri árunum, fyrir utan sólbrúnkuna.

Ég hitti Patch Adams á föstudaginn. Já, hinn eina sanna Patch Adams. Ég þakka guði fyrir bíómyndir og sjónvarp. Fyrir vikið veit ég svo miklu meira um allt. Hinn raunverulegi Patch Adams var þó ekki spor líkur Robin Williams. En magnaður var hann. Maður sem fylgir draumum sínum og hugsjónum. Það er alltaf svo gott að hitta svona fólk. Nærvera þess hefur hvetjandi áhrif á mann og fyllir mann von til að gera hvað sem er.

Svo er ég auðvitað búin að djamma aðeins síðan ég kom "heim." Skemmtilegast af öllu var matarboð sem þær stöllur Diljá, Heba og Fanney héldu núna á föstudagskvöldið. Við Guðni mættum til þeirra og við borðuðum góðan mat og skemmtum okkur svo ótrúlega vel. Takk fyrir mig, elskurnar. Þetta kvöld voru einmitt stödd í einu herbergi fjórar kynslóðir íslenskra Kaospilota. Vá!

Jæja, ég ætla að elda mér súpu á þessum blauta en jafnframt ljúfa sunnudegi. Ciao;)

Hér eru nokkrar myndir frá Róm og ein frá matarboðinu góða.


Tevere.

Colloseum.

Við ásamt Pierluigi, gestgjafa okkar á frábærum vínbar.

Horsing around in Rome.

Fjórar kynslóðir kaospilota og Fanney:)

Engin ummæli: