5.8.2003

Jæja þá, ðe nætmer is óver

Þetta er nú búin að vera aldeilis martröð þessi flutningur til Árósa. Þetta byrjaði allt á lestarstöðinni í Kaupmannahöfn. Við Brynja vorum oggu ponsu seinar og það gekk soldið illa hjá okkur að burðast með allt draslið mitt. Við stauluðumst að skjánum og einhvern veginn fundum það út að við ættum að fara á spor 1. Við komumst loks þangað og hlömmuðum okkur niður. Brynja skaust upp og ætlaði að kaupa Eurowoman handa okkur. Fyrir algjöra tilviljun fer ég að tala við einhverja konu og á endanum kemst ég að því að við erum á vitlausu spori og bara 5 mínútur í að lestin fari. Við reynum að drífa okkur af stað en það gekk heldur illa. Ég bað þá einhverja indæla stelpu um að hjálpa okkur og það gerði hún. Hljóp á eftir okkur um alla stöðina eins og hún ætti lífið að leysa. Já, ég skulda þér einn, Dorte! Alla vega, Brynja fór niður á vitlaust spor en ég og Dorte fórum á rétt, þökk sé henni (algjör elska barasta). Lestin var alveg að fara og við hlupum og hlupum. Rétt náðum að henda draslinu og mér inn áður en hurðarnar lokuðust. Ég sagði við lestarvörðinn: "...en vinkona mín er að koma!" Neibb, lestin bara bú bú og ég án Brynju um borð. Ég sat á gólfinu í einum millivagninum með allt draslið eins og hrávið í kringum mig og titraði. "Ó, sæjitt! Hvað nú?! Best að hringja í Brynju." En nei, ekki nóg með að Brynja varð eftir á stöðinni heldur varð veskið mitt eftir með henni. Síminn, allir peningarnir, vatnið og... lestarmiðinn!!! Þá fyrst fór ég að kúka á mig. Ég veit ekki hvað hefur liðið langur tími þangað til ég heyrði einhvern kalla á mig. "Kamilla? Ert þú Kamilla?" Þið getið ekki einu sinni ímyndað ykkur hvað var gott að heyra nafnið sitt. Like music to my ears! Þá var þetta lestarvörðurinn. Ég hélt að Brynja hefði kannski hoppað inn í annan vagn en nei. Hann sagði mér að hún væri enn á stöðinni. Great! Hann sagði mér þó að hún kæmi klukkustund á eftir mér og að það væri ekkert vesen með miðana. Mig langaði svo til að stökkva á hann og knúsa hann en náði með eitthverju móti að halda aftur af mér. Tók mig síðan saman í andlitinu, stóð upp og settist í sætið mitt. Svitinn bókstaflega lak af mér og svo var ég með ógeðslega mikið af drasli. Ég settist og fólkið á móti mér, faðir og ung dóttir, horfðu á mig vorkunnaraugum. Svo liðu þrír tímar án vatnssopa (sem ég innilega þráði) og þá komst ég loks á leiðarenda. Ég dröslaðist út með allt mitt hafurtask með hjálp elskulegrar konu og sat síðan á spori 3 í rúman klukkutíma og beið eftir hinni lestinni með Brynju, hjólinu, símanum, peningunum og ekki má gleyma vatninu, innanborðs. Þá hringdum við í Mads sem átti að koma að ná í okkur en það leið sko langur tími þar til við komumst "heim." Við þurftum nebbla að bíða eftir einhverri annarri stelpu þannig að ég var í tæpa þrjá tíma á lestarstöðinni í Árósum...

Svo er það heimili mitt eða svínastían eins og ég kýs að kalla það. Ekki nóg með að það sé 12,5 km í burtu frá lestarstöðinni heldur er það í öðru bæjarfélagi, nefnilega Lystrup eða úti-í-rassgati eins og ég kýs að kalla það. Já, Kamilla snyrtipinni býr með sex slúbbertum og einni stelpu. Þegar við komum inn mætti okkur þessi líka svakalega fýla. Það hafði greinilega verið haldið partý kvöldið áður og ekki enn hafði verið þrifið (og ekki enn í dag!). Við fórum upp í herbergið mitt sem er svo sem fínt og önduðum smá. Síðan þurftum við að taka upp úr töskunum og þrífa af okkur skítinn. Við áttum smá Martini Bianco og ég fór niður að búa til klaka. Ég skrúfaði frá krananum og hófst handa. Allt í einu fann ég að ég var orðin blaut á fótunum. Haldiði að vaskurinn hafi bara ekki verið handónýtur. Vantaði stykki í niðurfallsdótið þannig að allt vatnið flæddi út á gólf. Þarna var mér allri lokið, langaði bara að pakka aftur niður og fara heim til mömmu og pabba. Gleyma bara þessu öllu saman. Ef Brynja hefði ekki verið með mér hefði ég líklegast bara hoppað út um gluggann á herberginu mínu og sagt skilið við allt saman. Nei, nei, Brynja kom í veg fyrir taugaáfall hjá Kamillu litlu.

Vá, ég vona að þið nennið að lesa þetta allt saman. Þetta fer þó allt skánandi. Við fengum okkur Martini og tókum síðan strætó niður í bæ (sem tekur n.b. 45 mínútur) og fórum á pöbbarölt. Þetta er yndislegur bær, mjög fallegur en óhugnalega rólegur. Ég var orðin svo vön stórborgarlífinu í dejlige Köbenhavn, enda væri ég alveg til í að vera þar ennþá. Við áttum ágætis kvöld þarna en mjög rólegt, kannski tími til kominn eftir allt þetta sukk í Kbh...

Skólinn byrjaði í gær. Frábær skóli, frábær bekkur og allt æðislega spennó, segi meira frá því seinna. Þetta er nóg í bili. Ciao!

Engin ummæli: