3.7.2003

Eins gott að koma þessu bara út úr systeminu...

Já, þreytan er að líða hjá og ég er að hugsa um atburði liðinnar helgar. Eins og ég var búin að minnast á var þessi Roskilde '03 alveg frábær! Ég var nefnilega búin að sverja þann eið að stíga aldrei fæti á þetta svæði eftir hátíðina '97. Þá komum við Viddi frá Svíþjóð í von um sól og sumaryl og eðaltónlist. Nei, nei. Það var rigning allan tímann og ég sá bara tvær hljómsveitir (Radiohead og Smashing Pumkins). Mér fannst sú hátíð EKKI skemmtileg. Í ár var annað upp á teningnum. Þetta var svo gaman. Við, Ulla, Sabine, Villi, Louise, Dorthe og Alfio bjuggum til litlar tjaldbúðir við austur-innganginn. Reyndar höfðu Louise, Sabine og Villi verið svo indæl að setja upp tjöldin fyrir okkur á mánudeginum þannig að við þurftum ekki að gera neitt. Í hádeginu hittum við allt fólkið sem við áttum að vinna með, sáum baksviðsbarinn og fengum bjór- og matarmiða. Miðvikudagskvöldið var frekar rólegt þar sem lítið var að gerast í tónlistinni. Kíktum aðeins á camp sviðið og sáum Ske. Þau voru ágæt, nánast sama prógramm og á Stengade. Það var fullt af Íslendingum þarna, alveg heill hellingur af þeim. Á leiðinni upp í tjald hittum við Rósu og Halla Valla, mjög gaman!

Fimmtudagur:
Fór til Kbh. Hitti Addú. Kom til baka. Drakk bjór. Drakk meiri bjór... Fór á eina mögnuðustu tónleika sem ég hef nokkru sinni séð. Dave Gahan snillingur úr Depeche Mode. Hann tók fullt af nýja stöffinu sínu og svo gamla Depeche Mode slagara. Tónleikarnir voru í Arena sem er næststærsta tjaldið (fyrrum græna tjaldið) og stemmningin var þvílík. Hiti, sviti, dans og allir sungu með. Personal Jesus, Enjoy the Silence og mörg fleiri. Alveg frábært. Fyrr um kvöldið hafði ég líka séð Interpol sem er band sem ég hef verið að hlusta mikið á undanfarið. Mjög fín hljómsveit. Svo auðvitað Metallica en við kláruðum ekki þá tónleika út af Dave Gahan.

Föstudagur:
Fór að vinna klukkan tólf. Vinnan fólst mestmegnis í því að dæla bjór. Ég dældi og dældi og dældi. Svo var ég auðvitað með aukaglas fyrir mig við hliðina á sem ég fyllti á reglulega. Klukkan átta var vaktinni lokið og þá tók músíkin við. Við fengum meira að segja tips. Ég held að ég hafi fengið rúmar 300 dkr í tips yfir helgina. Ég held að ég hafi eytt um 300 dkr um helgina. Geri aðrir betur! Fullt af tónleikum þ.á.m. Iron Maiden, Coldplay og Sigur Rós. Djamm og djamm.

Laugardagur:
Vaknaði í stækju inni í tjaldi. Djöfull var heitt. Versta tilfinning í heimi er að vakna við það að þú getur ekki andað. Hentum okkur í heita sturtu baksviðs. Það var yndislegt að þurfa aldrei að bíða í röð eftir klóinu og geta farið í góða og hreina sturtu. Sáum síðan De La Soul, Melvins (svaka heavy metal, soldið einum og fyrir minn mellow smekk) og Dirty Vegas. Fór síðan að vinna frá kl. 20 - 04. Erfið vakt, maður! Brjálað að gera nánast allan tímann enda slógum við bjórsölumet þetta kvöldið. Úff! Eftir vaktina fórum við nokkur saman og ætluðum að þefa uppi eitthvað fjör en vorum síðan svo þreytt að við urðum að fara að hrjóta.

Sunnudagur:
Vaknaði illa. Fór í sturtu. Fékk mér brunch. Sá The Thrills. Sæt hljómsveit. Vann frá 16-23.30. Eftir vinnu þurftum við að tæma kæligám fullan af gosi. Bjuggum til svona human chain og misstum næstum hendurnar. Held ég hafi borið svona 200 kassa í allt. Eftir það þurftum við að tæma bjórkútana. Ekki erfitt verk. Svo skemmdi ekki fyrir að það var bara gullbjór eftir. Helltum í okkur en ég var nú orðin nokkuð vel í því eftir nokkra tíma við bjórdæluna. Svo hlupum við út á orange sviðið með fullt af bjór og hlustuðum á Björk og horfðum á flugeldasýningu. Æðisleg endalok á þessari hátíð. Svo fórum við baksviðs og drukkum meiri bjór. Ég var orðin mjög skrautleg. Fyrr um daginn höfðum við tekið niður tjöldin og ætluðum okkur að komast til Kbh. um nóttina. Við drifum okkur og náðum í draslið okkar og hentum okkur í biðröðina fyrir rútuna. Þá áttu tvær rútur eftir að koma og fólkið í röðinni hefði mannað 5-6 rútur. Við vorum frekar aftarlega í röðinni þannig að við ákváðum að það yrði að grípa til annarra ráða. Ulla gekk á röðina og reyndi að finna einhverja tvo til að deila leigubíl með okkur. Og viti menn! Við fundum tvær stelpur og fengum leigubíl tíu mínútum seinna. Það kostaði 125 dkr á mann og mér var skutlað upp að dyrum. Hefðum við tekið rútuna (65 dkr) hefðum við líklega þurft að standa alla leiðina til Kbh og endað á Ráðhústorgi þannig að við hefðum þurft að koma okkur heim þaðan. Þetta var án efa besti kosturinn þótt hann hafi kostað mig örlítið meira en ég eyddi hvort sem er svo litlu á hátíðinni. Ég var komin heim um 02.30 og rúmið mitt hefur aldrei verið eins mjúkt.

Ég er harðákveðin í að fara á Roskilde '04. Ég ætla að vinna þar aftur. Þetta er svo frábær upplifun að gera þetta svona og ódýrt. Auðvitað missir maður af einhverju en það er bara sjéns sem maður verður að taka. Sem sagt = Þetta var æði!!!

Eitt fyndið atvik:
Ég sat og var að vakta hurðina að barnum (ljúft. Sat bara, sólaði mig, skoðaði dagskránna og horfði á fólkið). Þá kemur einhver gaur upp að mér og og spyr mig á ensku hvað ég ætli nú að fara að sjá. Við töluðum helling saman og svo sagðist ég líka ætla að sjá Sigur Rós og að ég væri frá Íslandi. "Bíddu, ertu íslensk?!" Hann var þá líka íslenskur og við búin að kjafta um heima og geima á ensku. Skrítið samt að við föttuðum þetta ekki. Þetta var í ellefta skiptið í röð sem hann var á Hróarskeldu. Nokkuð öflugur. Ég er að uppgötva það núna að við kynntum okkur aldrei þannig að ég veit ekkert hvað maðurinn sem ég kjaftaði við í klukkustund heitir. Mærkeligt!

Engin ummæli: