Góðan daginn... eða hvað
Það er fjandans rigning úti og ég er búin að vera með kvef síðan ég kom hingað, næstum þrjár vikur. Það er nebbla varla verið að kynda upp húsin eftir að vorið er komið. Nema það að vorið er bara hérna einn og einn dag í einu og ég að frjósa og með lekandi hor og ljótan hósta og enga vinnu og tár á kinn... Reyndar eru vinnu- og tárahlutinn lygi. Er bara ekki byrjuð enn (að vinna þ.e., ekki gráta).
Laugardagskvöldinu hjá Önnu Pálu má lýsa með tveimur orðum. Át og upprifjun. Við fengum nautalund í matinn. Ú, beibí. Svo var ís í eftirrétt og ostar seinna um kvöldið. Held ég hafi étið stanslaust til klukkan tvö... Við rifjuðum upp æskuminningar og hlógum eins og fífl. Ég komst að því að ég hef afar takmarkað minni af æsku minni. Reyndar er það soldið skrítið að ég man lítil smáatriði en ekki stóra hluti. Til dæmis mundi ég ekki hver var umsjónarkennarinn minn í 7. bekk en man eftir því að nágrannar vinkonu minnar störtuðu alltaf bílnum sínum með skrúfjárni (!).
Afmælisbarn dagsins er Ulla. Til lykke, skat! Hún er 27 ára gömul og ég fór í afmælisbrunch til hennar í gær. Við sátum ca. 12 saman úti í garði hjá henni og borðuðum brunch. Voða næs. Það var geggjað veður alveg til kl. 4 en þá varð allt skýjað og fór að rigna. Þetta gerðist á svona fimm mínútum og mér varð hugsað til Íslands;-)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli