
Absúrd dagur
Við fórum frekar snemma heim í gærkvöldi (um þrjú) vegna þess að Ulla var búin að plana eitthvað fyrir okkur daginn eftir sem hún vildi ekki segja hvað væri. Svo mætti ég heim til hennar um eitt leytið og við hjóluðum út á ráðhústorg. Þar var stórt svið og hljómsveit að spila einhvers konar sígauna/kósakka/get ekki alveg skilgreint tónlist (samt mjög skemmtilegt). Á stórum borða yfir sviðinu stóð Latterens Verddag (sic)... Í dag var sem sagt alþjóðlegur dagur hlátursins! Eftir nokkur misskemmtileg atriði mættu allir formenn hlátursklúbba í Danmörku (sem eru furðulega margir) upp á svið og kynntu sig. Þarna var líka nokkuð merkilegur maður, nefnilega formaður heimsklúbbsins. Indverskur gaur með frábæran hreim. Hann sagði alltaf: "Danes are the best laughers in the world" en vegna hreimsins hljómaði það alltaf eins og "Danes are the best lovers in the world." Mjög hlægilegt. Hann sagði að allir ættu bara að hlæja og gera sjálfa sig og aðra hamingjusama og þá gætum við öðlast heimsfrið... Alla vega, enough about world peace;-) Svo komu hlátursæfingarnar. Þá byrjaði sko fjörið. Ráðhústorg stappað af fólki og allir hlæjandi. Við gerðum kokteilhláturinn, heit súpa hláturinn, raflostshláturinn og sv.frv. Síðan áttum við að setjast á jörðina og fara í hring með svona sex manns og hlæja. Við sátum þarna með fólki sem við þekkjum ekki neitt og hlógum eins og fífl. Við áttum m.a.s. að horfa í augun á fólkinu sem var soldið skrýtið. Einn gaurinn þarna var með tyggjó og hló svo mikið að það datt út úr honum. Það var sko byrjunin á hláturskasti allra í hringnum, alveg súrrealískt verð ég að segja. Eftir þessa leikfimi hófst hláturskeppni. Keppt var í mest smitandi hlátrinu, skrýtnasta hlátrinum og besta hermt eftir e-m frægum hlátrinum. Það var fyndið í svona fimm mínútur. Svo urðum við bara að fara enda magavöðvarnir orðnir vel æfðir eftir alla hlátursleikfimina. Þá fórum við bara á Makkarann og fengum okkur burger og fries.
Í kvöld fórum við í bíó. Bíóið heitir Empire og Ulla vann þar í mörg ár. Æðislegt bíó! Kertaljós og blóm og kósý stemmning. Við sáum The life of David Gale með Kevin Spacey og Kate Winslet. Ágætis mynd alveg enda alltaf frábært að sjá Mr. Spacey láta ljós sitt skína.
Á morgun ætla ég í atvinnuleit og skrá mig inn í landið (rétt misstum af helvítis skrifstofunni á fös. Lokaði kl. 13). Ég sá auglýsingu um að starfskraft vantaði í Carhartt búð í götunni hennar Ullu. Ég ætla að tékka á því. Það yrði fínt að vera bara í fatabúð í stað þess að vera á þönum með kaffibolla og bjór... Talaði líka við Nordjobb liðið en störfin sem eru í boði hjá þeim eru alveg hryllilega óspennandi. Samt má ég auðvitað ekkert vera eitthvað picky, verð í rauninni bara að taka því sem fæ (eða svona næstum því).
Er að hlusta á nýja Cardigans diskinn núna. Alveg hreint bloody marvee. Þau eru svona soldið eins og þau voru fyrst en samt á fágaðari hátt. Skidegodt, mand (segir kannski enginn þetta í Danmörku???)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli