16.3.2003

Ég sit hérna hálfskælandi fyrir framan tölvuna eftir að hafa horft á heimildamyndina Hlemm. Þvílíkur tilfinningarússibani sem þessi dagur var. Vaknaði í sælunni á Hótel Mömmu og fékk kjúlíus hjá henni. Svo lá leiðin með Sigrúnu Dögg í Smárabíó þar sem við fórum á Maid in Manhattan. Sykursæt klisjumynd sem fékk mig til að hlæja, skæla og næstum æla yfir væmni. Sum atriðin voru hreinlega yfir strikið. Eftir smá innsýn í ævintýralegan "veruleika" J-Lo og Ralph Fiennes (sem er very fine btw) í bíói í litlu Ameriku (aka litla Íslandi) tók við blákaldur raunveruleiki á RÚV. Þetta ógæfufólk fékk mig til að skæla og prísa mig sæla yfir því að svona hluti sé ég bara í imbakassanum. Reyndar fór þjóðernissósíalistinn í mínar fínustu. Kynþáttahatari sem var samt að spá í að fá sér asíska konu vegna þess að þær eru "rólegar og glaðlyndar" og ekki með fyrrum hjónabönd, grislinga eða skuldir í eftirdragi. Greinilega gaur með sinn skít á hreinu. Fyrst þegar hann var kynntur hugsaði ég með mér að þetta væri nú fínn gaur og gangandi dæmi um það að hægt sé að hífa sig upp úr sukki og svínaríi en annað kom á daginn. Hann fór hreinlega úr einni átt öfga í aðra. Sumir finna trúnna aðrir finna þjóðernissinnaðar lausnir og enn aðrir halda sig við sukkið og enda í gröfinni. Sorglegt en satt...

Fermingarafmælið var í gærkvöldi og heppnaðist rosa vel. Ekkert smá gott að hitta allt þetta fólk aftur, suma hafði maður ekki séð í átta ár. Margir komnir með börn, aðrir giftir eða trúlofaðir og ég barnlaus og karlmannslaus. Það er samt ekki alslæmt vil ég halda fram en fékk þó að heyra það frá góðvinum (!) mínum þeim Rúnari og Særúnu að blibbið mitt væri leiðinlegt, of miklar kellingaáherslur. Þannig er nú bara mál með vexti að ég lifi frekar óspennandi lífi. Skóli og of mikið djamm sem veldur því að ég verð frekar leiðinleg og þ.a.l. blibbið líka vegna þess að það er nú spegill sálarinnar eða eru það augun. Veit það ekki, er svo skemmd... Ég ætla bara að snúa við blaðinu, hætta í sukkinu og verða skemmtileg. Það er nýja markmiðið mitt. Þetta var skemmtilegt en nú kveð ég ykkur in search of greater things in the outer world...

Engin ummæli: